Sjö manns fórust þegar snekkjan sökk með 22 manns um borð í vonskuveðri rétt utan við höfnina Porticello á Sikiley, þar á meðal breski tæknimógúllinn Mike Lynch og átján ára gömul dóttir hans.
Lögmaður James Cutfield, nýsjálensks skipstjóra snekkjunnar, segir við Reuters-fréttastofuna að hann sé til rannsóknar og gefi skýrslu um slysið í dag. Rannsókn af þessu tagi þýðir ekki endilega að skipstjórinn verði ákærður.
Saksóknarar hafa sagt að rannsókn slyssins eigi eftir að taka sinn tíma. Hún veltur einnig á því að flak snekkjunnar náist af hafsbotni á um fimmtíu metra dýpi. Ambrogio Cartosio, saksóknarinn sem fer með málið, sagði um helgina að hann teldi líklegt að lögbrot hefðu verið framin, þar á meðal manndráp.
Snekkjan sökk á örfáum mínútum eftir að veðrið dundi á snemma að morgni 19. ágúst. Fimmtán manns komust lífs af, þar á meðal eins árs gömul stúlka. Tólf farþegar og tíu manna áhöfn var um borð.