„Ég var í spænskuskóla í sumar og kynntist þar stelpu frá Þýskalandi. Í hennar skóla er alltaf sama tegund af mat á vissum degi, t.d. fiskur á fimmtudögum og vegan á þriðjudögum,“ segir í aðsendri grein Odds Bjarna Bergvinssonar, fimmtán ára nemanda í Grunnskólanum í Vestmannaeyjum, í Morgunblaðinu í gær.
Hann leggur til að allir grunnskólar landsins taki upp svokallaðan SKVÓP-matseðil. Staðlaðan matseðil skólamáltíða.
Mat hent eins og rusli
Nú þegar skólamáltíðir eru gjaldfrjálsar segir Oddur Bjarni mikilvægt að foreldrar skrái börn sín ekki í mat að óþörfu. Sé matseðillinn staðlaður, viti foreldrar hvenær þeir eigi að skrá börnin sín í mat og hvenær þau vilji frekar nesti.
Þá þyki honum að eigin sögn ömurlegt að lenda í að fá sama matinn í hádegismat og í kvöldmat.
„Ef það er kjúklingaborgari í hádeginu þá er það geggjað. En ef það er líka kjúklingaborgari heima er ég bara, eeeeh,“ segir Oddur Bjarni.
Hugmyndin spretti ekki síst út frá umhverfissjónarmiðum. „Það er svo ógeðslega mikil matarsóun í skólum. Matnum er hent eins og hann sé bara rusl,“ segir Oddur.
En hvað þýðir SKVÓP?
„Þetta er skammstöfun á réttunum sem eru í matinn á hverjum degi,“ útskýrir hann. Vikumatseðilinn yrði því eftirfarandi:
- Mánudagur: Sjávarréttur, fiskur
- Þriðjudagur: Kjöt
- Miðvikudagur: Vegan
- Fimmtudagur: Ódýr matur, eða spónamatur
- Föstudagur: Partýmatur, pítsa, hamborgari eða takkó.
Heldur í vonina
Oddur Bjarni er í tíunda bekk og þarf því að hafa hraðar hendur ef hann vill sjá breytingarnar ganga í gegn meðan hann er enn í grunnskóla. Aðspurður segist hann alveg til í að berjast fyrir málstaðnum þrátt fyrir að hann muni líklega ekki njóta góðs af breytingunum.
„Ég er búin að senda forsetanum bréf og það er móttekið,“ segir Oddur. Í grein sinni í Morgunblaðinu biður hann Höllu um að koma hugmyndinni áleiðis.
Ertu bjartsýnn á að fá svar?
„Vonin er að deyja hægt og rólega en ég ætla að vera sterkur og tékka á email-inu mínu á hverjum degi. Helst reyna að fá fund með forsetanum til að kynna hugmyndina formlega.“