Veðurstofa Íslands greinir frá því að veðrið sé varasamt ökutækjum sem viðkvæm eru fyrir vindum en viðvörunin fyrir Suðurland gildir til klukkan 18 á morgun. Á miðhálendinu er spáð austan og suðaustan 18 til 23 metrum á sekúndu og verður mjög hviðótt, hvassast við fjöll. Slæmt ferðaverður verður á svæðinu. Viðvörunin gildir frá klukkan 13 til 22.
Vaxandi lægð á norðurleið
Að sögn veðurfræðings verður hæg norðlæg átt og víða léttskýjað í kvöld, en dálítil él norðaustanlands í fyrstu. Langt suður í hafi sé vaxandi lægð á norðurleið og nálgast lægðin landið í nótt.
„Fer þá að hvessa af austri og þykknar smám saman upp, hvassviðri eða stormur og fer að rigna á Suðurlandi um hádegi, en hægari og rigning víða í öðrum landshlutum seinnipartinn. Lægðin fer norðaustur yfir landið aðfaranótt þriðjudags og snýst þá fremur hæga suðvestanátt með smá skúrum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar.
Næsta lægð komi á þriðjudagskvöld með nýjan skammt af sunnanvindi og vætu og áfram rigni á miðvikudag. Síðan er útlit fyrir nokkra daga með hægum vindum og þurrviðri í flestum landshlutum. Yfirleitt milt veður að deginum.