„Hryðjuverk“ segir einn á samfélagsmiðlinum X um nýtt merki Alþingis sem leit dagsins ljós í vikunni. Merkið var einnig til umræðu í þessum pólitíska hópi á Facebook þar sem einn segir óþolandi stíl að fletja út öll einkenni og annar hótar að mótmæla breytingunni á Austurvelli.
Merkið sem hannað er af Strik studio leysir af hólmi merki sem Þröstur Magnússon hannaði sumarið 1994.
„Þetta er í mínum huga mjög vel heppnað,“ segir Guðmundur Oddur Magnússon, betur þekktur sem Goddur, prófessor í grafískri hönnun.
Sérstaklega vegna þess að hann telur nýja merkið meira auðkennismerki en það gamla.
„Það er einfaldara, grafískara og sést miklu betur úr fjarlægð og hægt að nota það miklu smærra en hitt. Og svo er þetta mjög vel gert. Þegar maður ber merkin saman þá hefur þakið verið allt of stórt á gamla, það er lækkað þarna. Það eru fullt af smáatriðum sem voru algjör óþarfi sem er búið að hreinsa út. Öll smáatriðin í glugganum og svona.“
Lagt var upp með að merkið henti betur fjölbreyttri notkun samtímans, eins og það er orðað á vef Alþingis. Goddur segir eðlilegt að merki taki breytingum í takt við tíðaranda, ef það eigi við.
„Sum lógó eru alveg heilög. Þú breytir þeim ekki, þú getur endurteiknað þau upp. Eins og til dæmis skjaldarmerkið og svona en ég hef aldrei séð litið á það að Alþingismerkið hafi verið eitthvað heilagt merki, það er langt langt því frá.“