Ísland átti mjög erfitt sóknarlega í gær en það var allt annað að sjá liðið í kvöld. Ísland skoraði 18 mörk í fyrri hálfleik og var fimm mörkum yfir þegar gengið var til búningsherbergja.
Ísland vann síðari hálfleikinn einnig með fimm mörkum og leikinn þar með tíu mörkum, lokatölur 35-25. Handbolti.is greinir frá.
Elísa Elíasdóttir, Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru markahæstar með fimm mörk hver. Alfa Brá Hagalín, Elín Klara Þorkelsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir komu þar á eftir með fjögur mörk hver. Í markinu varði Hafdís Renötudóttir 11 skot og Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði átta.
Ísland tapaði fyrir Póllandi í gær þar sem sóknarleikurinn var í tómu tjóni en hann var öllu betri í kvöld. Í raun hefðu íslensku stelpurnar átt að spila við Egyptaland en þar sem þær hættu við á síðustu stundu þá kom Házená Kynzvart inn í staðinn.
Á morgun fer síðasti leikur Íslands á undirbúningsmótinu fram en þá mæta stelpurnar okkar heimakonum í Tékklandi.