Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, réðist í gær í athugun hjá Skel fjárfestingafélagi. Athugunin beindist að starafsemi Lyfjavals ehf, sem er í meirihlutaeigu Skeljar. Lyfjaval er grunað um markaðsskiptingu, með því að loka hefðbundnu apóteki í Mjódd og einbeita sér að því að starfsrækja bílalúguapótek.
Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason er forstjóri Skeljar.
„Það er ekki mjög ítarlegt, skjalið sem okkur var birt. En í grunninn virðist þetta snúast um það að eftirlitið telji tvenns konar markað vera með apótek vera hér á Íslandi. Sem sagt annars vegar bílaapótek og hins vegar þessi hefðbundnu apótek,“ segir Ásgeir.

Öll apótekin líka hefðbundin
Lyfjaval rekur sjö apótek, þar af fimm með bílalúgu.
„En málið er núi samt það að samkvæmt íslenskum reglum verður að vera hægt að fara inn í apótekin. Þannig að öll bílalúguapótekin okkar eru líka hefðbundin apótek.“
ESA virðist líta svo á að með því að Lyfjaval horfi frekar til reksturs bílalúguapóteka, sé verið að skipta upp markaðnum.
„Að öðrum sé eftirlátið að reka þessu hefðbundnu apótek, þar eru tveir mjög stórir risar, og að Lyfjaval sé að fókusa á bílaapótek. Að í því felist markaðsskipting.“
Engin þörf á lögreglunni, sem ekki kom
Ásgeir segir engar reglur hafa verið brotnar.
„Ég er alveg sannfærður um það að niðurstaðan úr þessari athugun verði að Lyfjaval hafi engin lög brotið.“
Hann segir þá ekki rétt að lögreglan hafi tekið þátt í athuguninni, líkt og greint hafði verið frá.
„Það hafa engir lögreglumenn komið á skrifstofu Lyfjavals eða Skel, enda hefði ekki verið nokkuð einasta þörf á þeim. Við höfum afhent öll gögn sem ESA hefur beðið um að fá að athuga, og þar við situr,“ segir Ásgeir.