Innbyrðis leikir Real og Barca eru alltaf hápunktur á hverju fótboltatímabili á Spáni og víðar í Evrópu.
Þessi sautján ára gamli Spánverji á mikinn þátt í frábærri byrjun Börsunga sem hafa unnið níu af tíu leikjum sínum í deildinni og skorað í þeim 33 mörk eða yfir þrjú að meðaltali.
Yamal er með fjögur mörk og sex stoðsendingar í þessum tíu deildarleikjum.
Strákurinn ákvað að skreyta á sér tennurnar fyrir stórleikinn við Real Madrid.
Yamal hefur haft næga ástæðu til að brosa til þessa á tímabilinu og skartgripafyrirtækið TwoJeys sóttist eftir samstarfi við kappann. Það veðjar á það að strákurinn fái líka tækifæri til að brosa á Bernabéu.
Yamal kynnti nýtt útlit sitt í aðdraganda El Clasico en fyrrnefndur skartgripaframleiðandi sérhannaði skraut á teinanna hans.
Yamal er jú það ungur ennþá að hann stendur enn í tannréttingum. Strákurinn verður ekki átján ára fyrr en næsta sumar.
Hann hefur líka reynslu af El Clasico leikjum en á enn eftir að skora eða gefa stoðsendingu í þremur leikjum sínum á móti Real Madrid. Nú er að sjá hvort skreyttar tennur boði eitthvað gott annað kvöld.