Körfubolti

Fær meira fyrir hálf­tíma ræðu en fyrir að spila heilt tíma­bil

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Caitlin Clark mætt á háskólakörfuboltaleik með NBA leikmanninum Tyrese Haliburton sem spilar fyrir Indiana Pacers. Hann fær miklu miklu miklu hærri laun en hún hjá Indiana Fever.
Caitlin Clark mætt á háskólakörfuboltaleik með NBA leikmanninum Tyrese Haliburton sem spilar fyrir Indiana Pacers. Hann fær miklu miklu miklu hærri laun en hún hjá Indiana Fever. Getty/Justin Casterline

Körfuboltakonan Caitlin Clark er ein vinsælasta íþróttakona Bandaríkjanna en það kostar greinilega sitt að fá hana til að koma og flytja fyrirlestur.

Don Steinbrugge, framkvæmdastjóri Agecroft Partners, komst að því þegar hann sóttist eftir því að fá Clark til sín til að flytja tölu á ráðstefnu hjá sér.

Steinbrugge leitaði til Clark í sumar þegar hlé var gert á WNBA deildinni vegna Ólympíuleikanna. Clark var ekki valin í bandaríska landsliðið og átti því að eiga lausan tíma til að koma.

Steinbrugge fékk hins vegar það svar að körfuboltakonan tæki hundrað þúsund dollara fyrir þrjátíu mínútna fyrirlestur en það gerir 13,8 milljónir króna.

Steinbrugge afþakkaði en glöggir aðdáendur Clark voru fljótir að finna út að hún hafi haldið sex fyrirlestra á síðasta ári.

Ef þetta er rétt þá Steinbrugge þá hefur Clark fengið sex hundruð þúsund Bandaríkjadali fyrir þessa fyrirlestra sína eða rétt tæpar 83 milljónir króna.

Þetta er mjög sérstakt þegar talan er borin saman við heildarlaun hennar á fyrsta tímabilinu í WNBA.

Clark fékk rúma 76 þúsund dollara í laun fyrir allt tímabilið og fékk því mun meira fyrir hálftíma fyrirlestur en að spila allt tímabilið sem tók sex mánuði frá apríl til september. Heildarlaun hennar sem leikmanns voru 76.535 dollarar eða 10,6 milljónir króna.

Clark er reyndar með mjög stóra auglýsingasamninga og fær því mun meira borgað en bara þessi leikmannalaun sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×