Innlent

Enginn skilningur á al­var­leika málsins hjá SVEIT

Bjarki Sigurðsson skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Vísir/Arnar

Fimmtungur meðlima samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði (SVEIT) hefur sagt sig úr samtökunum eftir að Efling tilkynnti um aðgerðir gegn þeim. Formaður Eflingar segir aðgerðirnar gríðarlega nauðsynlegar.

Efling boðaði í gær aðgerðir gegn SVEIT vegna kjarasamnings þeirra við stéttarfélagið Virðingu. Efling segir Virðingu vera gervistéttarfélag, stofnað af fólki tengdu SVEIT, til að skerða kjör starfsmanna til muna. SVEIT hefur vísað ásökunum um tengsl þess og Virðingar á bug og segir kjarasamning þeirra löglegan.

Erindi um aðgerðirnar var sent á fyrirtækin 108 í SVEIT. Voru þau hvött til að segja sig úr samtökunum.

„Af þeim sem hafa svarað er yfirgnæfandi meirihluti sem upplýsti um það að þau ætli ekki að innleiða þennan svikakjarasamning Virðingar og ætli sér að fylgja kjarasamningi Eflingar. Svo er stór hópur sem hefur jafnframt lýst því yfir að þau hafi sagt sig úr SVEIT eða ætli sér að gera það,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. 

Enginn frá Virðingu hefur sett sig í samband við Eflingu frá því að aðgerðirnar hófust.

„En ég hef einn tölvupóst frá forsvarsmanni SVEIT sem bauð mér að koma í það sem hann kallaði óformlegt kaffispjall. Sem er að mínu viti til marks um að það virðist ekki vera skilningur til staðar SVEITarmegin á því hversu grafalvarlegt athæfi þeirra er,“ segir Sólveig. 

Aðgerðir Eflingar hafa verið gagnrýndar. Sólveig gefur lítið fyrir þá gagnrýni.

„Ef að við værum ekki að grípa til þessara aðgerða þá værum við einfaldlega að svíkja okkar hlutverk. Þá væri ég augljóslega vanhæfur formaður í því stéttarfélagi sem hefur samningsumboð fyrir þessu störf,“ segir Sólveig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×