Þetta kemur fram í tilkynningu frá RARIK. Miklir vatnavextir ollu því að Skógá ruddi sig með þeim afleiðingum að víkurstrengur skemmdist aðfaranótt mánudags. Bilunin olli rafmagnstruflunum á svæðinu og voru íbúar beðnir um að fara sparlega með rafmagn. Notast var við varaafl meðan á viðgerðinni stóð.
Karl Matthías Helgason sérfræðingur í stjórnstöð RARIK segir viðgerðir hafa gengið fram úr vonum. Búið sé að spennusetja strenginn og allt varaafl hafi komist í eðlilegan rekstur um níuleytið í kvöld.
Sjá einnig: Viðgerð hafin og enn allt keyrt á varaafli í Vík
Starfsmenn hafi tjaldað yfir viðgerðarsvæðið til að geta sett saman strengina. „Það er náttúrlega ekki hægt að gera það í rigningu,“ segir Karl í samtali við fréttastofu.
„Þetta getur gerst þegar rignir og þegar náttúran tekur völdin. Í þessu tilfelli ryður áin sig og breytir um farveg og skemmir strenginn. Þannig að núna var borað undir ána og sett rör. Hvort það haldi betur verður náttúran og tíminn að leiða í ljós.“
Hann þakkar íbúum í Vík fyrir skilninginn og biðlundina meðan á viðgerðinni stóð.