Viðskipti innlent

Festa kaup á átta­tíu í­búðum fyrir eldra fólk

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Íbúðunirnar eru fyrir tekju- og eignalægra eldra fólk.
Íbúðunirnar eru fyrir tekju- og eignalægra eldra fólk. vísir/vilhelm

Leigufélag aldraðra og Brák íbúðafélag hafa komist að samkomulagi um að Brák kaupi öll þrjú fjölbýlishús Leigufélags aldraðra sem eru samtals 80 hagkvæmar leiguíbúðir fyrir eldra fólk. Með kaupunum er ætlunin að ná fram aukinni stærðarhagkvæmni og renna styrkari stoðum undir rekstur íbúðanna og áframhaldandi útleigu þeirra til tekju- og eignalægra eldra fólks.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá leigufélaginu.

„Íbúðirnar sem um ræðir eru við Dalbraut 6 á Akranesi og Vatnsholt 1 og 3 í Reykjavík. Samhliða kaupunum yfirtekur Brák alla leigusamninga Leigufélags aldraðra og hafa kaupin því ekki áhrif á búsetu núverandi leigjenda. Með kaupunum verður til stærra félag sem getur sett enn meiri kraft í uppbyggingu hagkvæmra íbúða fyrir tekju- og eignalægra eldra fólk,“ segir í tilkynningunni.

„Brák er óhagnaðardrifin húsnæðissjálfseignastofnun sem er ætlað að tryggja tekjulágum einstaklingum og fjölskyldum, nú einnig öldruðum, aðgengi að íbúðum í langtímaleigu með því að kaupa eða byggja, eiga og hafa umsjón með rekstri og viðhaldi íbúðanna. Var Brák stofnuð árið 2022 af 31 sveitarfélagi í þeim tilgangi að ná fram stærðarhagkvæmni og bættum rekstri hagkvæmra íbúða innan almenna íbúðakerfisins.

Fyrir á Brák um 100 íbúða eignasafn víðsvegar um landið og er með 110 íbúðir í byggingu sem stefnt er að teknar verði í notkun á árinu 2025. Verður félagið því komið með tæplega 300 íbúðir í rekstur áður en langt um líður. Með kaupunum er húsnæðisöryggi leigjenda Leigufélags aldraðra hses. tryggt til lengri tíma litið og enn sterkari stoðum rennt undir rekstur og uppbyggingaráform Brákar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×