Erlent

Stuðnings­menn Assad drápu fjór­tán ráðu­neytis­starfs­menn

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Á myndinni sjást öryggisverðir nýrrar ríkisstjórnar standa vaktina fyrir framan mótmælendahóp alavíta.
Á myndinni sjást öryggisverðir nýrrar ríkisstjórnar standa vaktina fyrir framan mótmælendahóp alavíta. AP

Starfandi ríkisstjórn uppreisnarmanna í Sýrlandi segir að stuðningsmenn forsetans fyrrverandi Bashar al-Assad, hafi drepið fjórtán hermenn innanríkisráðuneytisins í skyndiárás í vesturhluta landsins seint í gær.

Sagt er að tíu aðrir hermenn hafi slasast í átökunum í nágrenni Tartous, þar sem alavítar ráða ríkjum. Alavítar eru valdamikill trúarhópur múslima sem Assad fyrrverandi forseti tilheyrir. Hópurinn er í minnihluta í landinu.

Samkvæmt heimildum BBC var árásin gerð þegar ríkisstjórn uppreisnarmanna ætlaði að handtaka fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Assads, og sækja hann til saka fyrir framferði sitt í málefnum Saydnaya fangelsis. Frekari upplýsingar um árásina liggja fyrir.

Ríkisstjórn Bashar al-Assads var steypt af stóli fyrir tveimur vikum síðan og uppreisnarmenn stjórna nú landinu. Sitjandi forsætisráðherra er Mohammed al-Bashir, en valdamesti maðurinn í landinu er uppreisnarmaðurinn Ahmed al-Sharaa. Hann var á árum áður nátengdur al-Qaeda.

Sjá: Segir sýrlensku þjóðina þreytta og vilja fá að lifa í friði

Töluverð óvissa ríkir um framhaldið í Sýrlandi. Alavítar óttast um afdrif sín undir nýrri ríkisstjórn, sumir Sýrlendingar vilja sækja þá til saka fyrir stríðsglæpina sem framdir voru í ríkisstjórn Assads, sem var alavíti.

Þá brutust út mikil mótmæli um jólin í höfuðborginni Damaskus, þegar kristnir Sýrlendingar mótmæltu því að jólatré hefði verið brennt í norðanverðu landinu. Þeir kröfðust þess að ný ríkisstjórn stæði vörð um réttindi kristinna og annarra minnihlutahópa í landinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×