Viðskipti innlent

Slitu kol­efnis­bindingar­fyrir­tækinu Running Tide

Kjartan Kjartansson skrifar
Starfsmaður Running Tide að störfum. Öllu starfsfólki var sagt upp síðasta sumar og félaginu var slitið í desember.
Starfsmaður Running Tide að störfum. Öllu starfsfólki var sagt upp síðasta sumar og félaginu var slitið í desember. Running Tide

Hluthafar nýsköpunarfyrirtækisins Running Tide samþykktu að slíta félaginu í síðasta mánuði. Rannsóknartæki félagsins enduðu meðal annars hjá Háskóla Íslands og Hafrannsóknastofnun, að sögn fyrrverandi framkvæmdastjóra.

Markmið Running Tide var að rækta stórþörunga á sérhönnuðum baujum til þess að binda kolefni í hafi og selja kolefnisbindingareiningar út á ræktunina. Ætlunin var að rækta þörugana á alþjóðlegu hafsvæði suður af Íslandi og samdi fyrirtækið um uppbyggingu starfsemi sinnar á Akranesi.

Erfiðlega gekk þó að fjármagna nýsköpunarstarfsemi Running Tide og var ákveðið að hefja undirbúning að slitum félagsins í maí í fyrra. Öllu starfsfólki var sagt upp þá um mánaðamótin.

Kristinn Árni L. Hróbjartsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi, segir félagið ekki hafa orðið gjaldþrota. Það hafi borgað allar skuldir, greitt starfsfólki laun, skilað leigulóðum og selt eignir eða komið þeim í not áður en félaginu var slitið.

Running Tide hafi þannig gefið Háskóla Íslands rannsóknartæki og selt Hafrannsóknarstofnun búnað á undirverði. Þá hafi nýsköpunarfyrirtæki í þörungaræktun keypt ýmis rannsóknartæki. Marty Odlin, bandarískur stofnandi Running Tide, keypti hugverk sem urðu til tengd mælingum og aðferðum fyrirtækisins.

Neikvæð umfjöllun hafði engin áhrif

Líkt og fleiri kolefnisbindingarverkefni á Íslandi var Running Tide viðfangsefni neikvæðrar fjölmiðlaumfjöllunar í fyrra. Gagnrýni kom fram á aðferðir fyrirtækisins og eftirlit stjórnvalda með starfsemi fyrirtækja á þessu sviði. 

Kristinn segir að umfjöllunin hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðunina um að hætta starfseminni á Íslandi eða að ekki hafi fengist fjármagn til þess að halda henni áfram.

Grunnhugmyndin að baki Running Tide um að sökkva lífmassa á hafsbotn og binda þannig kolefni sé ekki flókin og mýmörg fyrirtæki og rannsóknarverkefni snúist um hana.

„Grunnvísindalega hugmyndin á bak við þetta að sökkva kolefni í lífmassa lifir fínu lífi og það er fullt af fólki að pæla í henni um allan heim,“ segir Kristinn.


Tengdar fréttir

Running Tide semur um upp­byggingu á Akra­nesi

Bandaríska loftslagsfyrirtækið Running Tide hefur undirritað samning við Breið - þróunarfélag og Brim hf. um leigu húsnæðis á Akranesi undir aðstöðu fyrir rannsóknir og framleiðslu á þörungum til kolefnisbindingar í hafi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×