Forest heldur því áfram mögnuðu gengi sínu en liðið er nú með 40 stig í þriðja sætinu alveg eins og Arsenal sem er með betri markatölu í öðru sætinu.
Forest menn hafa unnið sex deildarleiki í röð eða alla leiki sína síðan þeir töpuðu á móti Manchester City í byrjun desember.
Þetta var hins vegar fyrsta tap Úlfanna undir stjórn Vitor Pereira sem hafði náð í sjö stig af níu mögulegum í fyrstu þremur leikjum sínum. Wolves getur þakkað markatölu sinni fyrir það að liðið situr ekki í fallsæti en liðið er með jafnmörg stig og Ipswich en betri markatölu.
Morgan Gibbs-White kom Forest í 1-0 strax á sjöundu mínútu leiksins en hann var að skora á móti sínum gömlu félögum. Gibbs-White skoraði með skoti úr teignum eftir undirbúning frá Anthony Elanga.
Norðmaðurinn Jörgen Strand Larsen fékk algjört dauðafæri til að jafna metin en tókst ekki að skora. Uppskera Úlfanna í fyrri hálfleik var heldur dræm miðað við frammistöðuna.
Í staðinn kom Chris Wood Forest í 2-0 með marki mínútu fyrir leikslok eftir stoðsendingu frá Callum Hudson-Odoi.
Þetta var tólfta mark Wood í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili. Það reyndist þó ekki vera síðasta mark leiksins.
Varamaðurinn Taiwo Awoniyi innsiglaði sigurinn með marki í uppbótartímanum eftir að hafa fengið sendingu frá James Ward-Prowse.