Viðskipti innlent

Semja um sjó­flutninga og hafnar­upp­byggingu í Þor­láks­höfn

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Þorlákshöfn í Ölfusi.
Frá Þorlákshöfn í Ölfusi. Vísir/Egill

Sveitarfélagið Ölfuss og flutningafyrirtækið Cargow Thorship hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um áætlunarsiglningar flutningaskipta til Þorlákshafnar sem eiga að hefjast síðar á þessu ári. Samkomulagið felur einnig í sér fyrirheit um uppbyggingu hafnaraðstöðu bæjarins.

Í tilkynningu frá Cargow Thorship kemur fram að Ölfuss skuldbindi sig til þess að skapa fyrsta flokks aðstöðu fyrir afgreiðslu vöruflutningaskipa og gámaþjónustu. Fyrirtækið skuldbindi sig á móti til þess að nota aðstöðuna sem meginhöfn sína á Íslandi fyrir nýjar siglingarleiðir á milli Íslands og meginlands Evrópu. Kynna á áætlunina á næstu mánuðum.

Þorlákshöfn er sögð hafa orðið fyrir valinu fyrir meginhöfn Cargow Thorship vegna hagstæðrar staðsetningar og möguleika á áframhaldandi vexti til lengri tíma litið.

Markmið sveitarfélagsins er sagt að efla Þorlákshöfn sem vöruflutningahöfn fyrir sjóflutninga til og frá landinu. Aðstæður séu góðar þar til að taka á móti stórum fragtskipum og þjónusta á gámasvæði. Staðsetningin á suðvesturhorninu með greiðfærum samgönguæðum við atvinnulíf á höfuðborgarsvæðinu bjóði upp á margvísleg tækifæri til aukinna umsvifa þar.

Íbúar í Ölfusi höfnuðu fyrirhugaðri mölunarverksmiðju fyrirtækisins Heildberg í Þorlákshöfn í íbúakosningu í desember. Á meðal þess sem var gagngrýnt við áformin voru miklir þungaflutningar í tengslum við starfsemina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×