Tónlist

Bríet, Valdimar og Elín Hall meðal hæstu styrkhafa

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Kári Egilsson, Elín Hall, Bríet Ísis Elfar og hljómsveitin Valdimar voru meðal hæstu styrkhafa til tónlistarmanna í nýjustu úthlutun Tónlistarsjóðs.
Kári Egilsson, Elín Hall, Bríet Ísis Elfar og hljómsveitin Valdimar voru meðal hæstu styrkhafa til tónlistarmanna í nýjustu úthlutun Tónlistarsjóðs. Vísir/Vilhelm

Tónlistarsjóður, sem var stofnaður í fyrra, hefur veitt 77 milljónum til 74 verkefna í fyrri úthlutun ársins 2025. Meðal þeirra sem hlutu hæstu styrki ársins voru Bríet, Celebs, Elín Hall og Valdimar.

Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr öllum deildum Tónlistarsjóðs og var haldinn móttaka í Tónlistarmiðstöð þann 9. janúar fyrir styrkhafana.‍ 

Á móttökunni flutti tónlistarkonan Árný Margrét tvö lög fyrir viðstadda og svo ávarpaði Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, samkomuna og færði handhöfum hæstu styrkja blómvendi eftir að fulltrúar úthlutunarnefnda höfðu gert grein fyrir niðurstöðum.

Alls bárust sjóðnum 424 umsóknir en til úthlutunar voru rétt rúmar 77 milljónir.

Ýmiss konar frumsköpun styrkt

Níu tónlistarmenn og hljómsveitir hlutu hæstu tónlistarstyrki úr deild frumsköpunar og útgáfu og fékk hvert þeirra styrk upp á 1,5 milljón.

Þau voru eftirfarandi: Bríet, Celebs, Elín Hall, hist og, Jelena Ciric, Jófríður Ákadóttir, Kári Egilsson, Sara Mjöll Magnúsdóttir og Valdimar.

Ásgeir Aðalsteinsson (Valdimar), Valgeir Skorri (Celebs), Margrét Arnardóttir (f.h. Jelenu Ciric), Kári Egilsson, Elín Hall og Eiríkur Orri (hist og) taka við tónlistarstyrkjum sem Logi Einarsson og Sindri Ástmarsson, formaður úthlutunarnefndar, afhentu.

„Aðdráttarafl tónlistarinnar skapar tekjur og verðmæti langt út fyrir það sem við leggjum til hennar. Þrátt fyrir ítrekaða útreikninga þurfa talsmenn skapandi greina sífellt að réttlæta stuðning ríkisins við listgreinar. Að margföldunaráhrifin fyrir hagkerfið réttlæti hann ekki og að tónlistarfólk sem nær ekki ásættanlegum vinsældum geti einfaldlega fundið sér eitthvað annað að gera. Þetta hugarfar lýsir mikilli skammsýni – en líklega aldrei eins mikið og nú. Á tímum þar sem gervigreindin getur pumpað út þúsundum laga með einum smelli hefur aldrei verið mikilvægara að styðja við raunverulegan sköpunarkraft, þessa frumþörf mannsins, sem sameinar fólk og dregur það heimshorna á milli,“ sagði Logi Einarsson menningarráðherra meðal annars í ræðu sinni.

Brák og Kammeróperan hlutu hæstu styrki

Hæstu Flytjendastyrki úr deild lifandi flutnings, upp á tvær milljónir króna hvort, fengu Barokkbandið Brák og Kammeróperan. Þá hlaut Sinfóníuhljómsveit unga fólksins 1,5 milljón króna í styrk.

Engir nýir langtímasamningar voru veittir í úthlutuninni en í tilkynningu frá Tónlistarmiðstöðinni kemur fram að eftirfarandi verkefni séu með langtímasamninga í gildi 2025:

  • Nordic Affect - 2,5 milljónir króna (2025 -2026)
  • Caput - 6 milljónr króna. (2024-2026)
  • Kammersveit Reykjavíkur - 5 milljónir króna (2024-2026)
  • Cauda Collective - 1 milljón króna (2024-2025)
Kjartan Óskarsson (f.h. Kammeróperunnar), Andreas Guðmundsson (f.h. Sinfóníuhljómsveitar unga fólksins) og Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir (Barrokkbandið Brák) taka við flytjendastyrkjum sem Logi Einarsson og Guðmundur Birgir Halldórsson, f.h. úthlutunarnefndar, afhentu.

Styrkir til jazzhátíðar, INNI útgáfu og tónlistarsamfélagsins OPIA

Hæstu Viðskiptastyrki úr deild þróunar og innviða hlutu INNI, Jazzhátíð Reykjavíkur og OPIA Community uppá 3 milljónir króna hvert. Forntónlistarhátíðin Kona hlaut 2,5 milljónir króna í styrk.

Ekki voru neinir langtímasamningar heldur veittir í þessari úthlutun en eftirfarandi verkefni eru með langtímasamning í gildi 2025:

  • Myrkir músíkdagar - 4 m.kr. (2025-2026)
  • Óperudagar - 4 m.kr. (2024-2026)
  • Sönghátíð í Hafnarborg - 2 m.kr. (2024-2026)
  • Reykholtshátíð - 1 m.kr. (2024-2026)
  • Bræðslan - 1,5 m.kr. (2024-2026)
  • Sumartónleikar í Skálholti - 4 m.kr. (2024-2025)
  • Iceland Airwaves - 6 m.kr. (2024-2026)
  • Mengi - 3 m.kr. (2024-2025)

‍Hæstu Markaðsstyrki úr útflutningsdeild hlutu Ólöf Arnalds uppá tvær milljónir króna og Árný Margrét uppá 1,5 milljón króna.

Árni Þór Árnason (OPIA), Colm O’Herlihy (Inni Music), Pétur Oddbergur Heimisson (Jazzhátíð Reykjavíkur) og Diljá SIgursveinsdóttir (Kona forntónlistarhátíð) taka við viðskiptastyrkjum sem Logi Einarsson og glaðbeittur Arnar Eggert Thoroddsen, f.h. úthlutunarnefndar, afhentu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.