Erlent

Enn annar gróðureldurinn ógnar Los Angeles

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Eldurinn er sá nýjasti í röð gróðurelda umturnað hafa lífi Los Angeles-búa undanfarnar vikur.
Eldurinn er sá nýjasti í röð gróðurelda umturnað hafa lífi Los Angeles-búa undanfarnar vikur. Getty

Nýr gróðureldur hefur kviknað í Los Angeles-sýslu og hefur breiðst hratt út sökum stífra vinda á svæðinu. Borgin er enn í sárum eftir einn skæðasta eld í sögu sinnar.

Hinn svokallaði Hughes-eldur kviknaði við Castaic-vatn í norðurhluta borgarinnar. Hann logar nú stjórnlaust á um tuttugu ferkílómetra svæði. Enn hafa engin heimili orðið eldinum að bráð en viðbragðsaðilar hafa enn enga stjórn á útbreiðslu eldsins. Íbúum hverfa í nágrenni við eldinn hefur verið gert að rýma heimili sín.

Eldarnir sem logað hafa í Palisades- og Eatonhverfum, og loga enn, eru einir þeir skæðustu í sögu borgarinnar sem hefur þó ekki ósjaldan þurft að glíma við sinuelda í sögu sinni.

Að minnsta kosti 28 manns hafa látið lífið í stjórnlausum eldunum sem hafa gleypt rúmlega 14 þúsund byggingar og skilið eftir sviðnar rústir víða um borgina. Viðbragðsaðilum hefur tekist að ná stjórn á þeim að mestu leyti en þó ekki öllu.

Fleiri eldar hafa kviknað víða í Kaliforníuríki í janúar og hefur að mestu tekist að halda þeim í skefjum.

„Við erum að horfa fram á aðra umferð af einstaklega gróðureldavænum aðstæðum þvert yfir Suður-Kaliforníu. Á þessum tímapunkti er þetta farið að hljóma eins og biluð plata,“ hefur Guardian eftir Todd Hall, veðurfræðingi hjá Veðurstofu Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×