Dagur Sigurðsson henti íslenska landsliðinu út úr heimsmeistaramótinu í handbolta þegar Króatía vann sex marka sigur á Íslandi í milliriðlinum. Það var eina tap Íslands á mótinu en var það afdrifaríkt að það kom í veg fyrir að íslenska liðið komst í átta liða úrslitin.
Dagur og strákarnir hans í króatíska landsliðinu fylgdu því svo eftir með því að slá Ungverja og Frakka út í útsláttarkeppninni. Þeir mæta Danmörku í úrslitaleik HM í dag.
Aron Guðmundsson ræddi við Snorri Steinn Guðjónsson landsliðsþjálfara og þar barst talið meðal annars að afreki Dags. Snorri hefur mikla trú á Degi.
„Ég þekki vel til Dags og hans fjölskyldu. Ég vona innilega að hann vinni,“ sagði Snorri Steinn.
Það er mikil pressa á þjálfara króatíska landsliðsins en liðið er að koma upp eftir að hafa verið í lægð. Hvernig metur Snorri hans vegferð með þessu liði?
„Hún er glæsileg. Ef maður kíkir aðeins aftur í tímann þá hefur þetta verið kaflaskipt. Hann tekur óvænt við þeim og kemur þeim á Ólympíuleikana. Þar eru þeir bara slappir og komust ekki upp úr riðlinum þar,“ sagði Snorri.
„Þar af leiðandi er hann undir mikilli pressu. Króatarnir eru þarna að spila á heimavelli og þeir eru þekktir fyrir að vera ekki mjög þolinmóðir alla vega ekki gagnvart þjálfurum,“ sagði Snorri.
„Hann hittir bara vel á þá. Hann er bara góður þjálfari og góður karakter. Ég held að það henti honum vel að vera í þessu umhverfi. Hann hefur bara tæklað þetta vel. Meira segja þegar þeir lenda í mótlæti á mótinu sjálfu og tapa fyrir Egyptum,“ sagði Snorri.
„Hann vinnur sig bara út úr því. Svo má alveg ræða það að þeir eru á heimavelli og það er ekkert grín að spila við þá þar. Við upplifðum það og við sáum það á tölunum á móti Frökkum að þegar þeir fá mót á heimavelli þá eru þeir erfiðir við að eiga,“ sagði Snorri.
„Það verður fróðlegt að sjá þá í Noregi,“ sagði Snorri.
Það má sjá þetta spjall hér fyrir ofan en eins má hlusta á allt viðtalið við Snorra Stein í hlaðvarpsþætti í Besta sætinu en hann er aðgengilegur hér fyrir neðan.