Handbolti

Trylltust þegar Dagur á­varpaði fjöldann: „Þið eruð klikkað fólk“

Sindri Sverrisson skrifar
Þið eruð klikkuð, sagði Dagur Sigurðsson uppi á sviði í beinni útsendingu RTL í gær.
Þið eruð klikkuð, sagði Dagur Sigurðsson uppi á sviði í beinni útsendingu RTL í gær. Skjáskot/RTL

Dagur Sigurðsson flutti stutt og skýr skilaboð til þeirra tugþúsunda króatískra aðdáenda sem í gær hópuðust saman á torgi í miðborg Zagreb til að fagna Degi og hans mönnum eftir silfurverðlaunin á HM í handbolta.

„Hvernig líður þér?“ var Dagur spurður áður en hann tók til máls uppi á sviðinu.

„Þið eruð algjörlega klikkað fólk!“ sagði Dagur léttur í bragði og þessi lína sló í gegn hjá Króötunum sem hoppuðu og sungu í gleðivímu.

Dagur sagði ekki mikið fleira en bætti þó við: „Ég vil bara segja að ég elska ykkur öll. Ég elska liðið mitt en ég elska Pesic mest,“ sagði Dagur léttur og faðmaði síðan hinn 35 ára gamla markvörð Ivan Pesic sem mun hafa verið að spila sína síðustu landsleiki, líkt og goðsögnin Domagoj Duvnjak.

Dagur varð fyrir tæpu ári síðan fyrsti erlendi þjálfarinn til að taka við króatíska landsliðinu, sem svo lengi var í allra fremstu röð í heiminum en hafði ekki unnið verðlaun á stórmóti síðan á EM 2016.

Ýmsar gagnrýnisraddir heyrðust en króatískir miðlar lýsa því hvernig Dagur náði fljótt að vinna menn á sitt band. Hann hafi til að mynda strax lært króatíska þjóðsönginn og lagt sig fram við að aðlagast króatískri menningu. Frammistaðan á HM tók svo af allan vafa og Dagur er kominn á spjöld sögunnar hjá króatíska liðinu.

Króatar unnu frækna sigra á heimavelli sínum á HM en flugu svo til Noregs í úrslitaleikinn við Danmörku þar sem liðið beið lægri hlut. Dagur hafði á orði eftir þann leik að fróðlegt hefði verið að sjá þann leik fara fram í Zagreb, greinilega fullviss um mikilvægi króatískra stuðningsmanna sem eins og fyrr segir fjölmenntu til að fagna Degi og hans mönnum við heimkomuna í gær.

Dagur, sem er fyrsti Íslendingurinn sem vinnur til verðlauna á HM karla í handbolta, hefur gefið út að hann muni áfram þjálfa Króatíu og er þegar farinn að horfa til þess að móta lið sem náð gæti árangri á Ólympíuleikunum í Los Angeles árið 2028.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×