Víkingar fara með eins marks forskot í seinni leikinn í Aþenu næsta fimmtudag, í þessu einvígi um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu.
Forskotið hefði hæglega getað verið að minnsta kosti tvö mörk og sérfræðingar Stöðvar 2 Sport voru á einu máli um að vítaspyrnudómurinn hefði verið rangur, eins og sjá má í umræðunum hér að neðan.
Norski dómarinn Rohit Saggi dæmdi upphaflega hendi og víti en það var kolrangur dómur því boltinn fór aldrei í hönd nokkurs leikmanna Víkings.
Það sem skipti hins vegar sköpum var að Saggi hafði beðið í um fjórar sekúndur með að flauta í flautuna sína. Á þeim stutta tíma varð annað atvik sem Saggi mat á endanum sem brot Daníels Hafsteinssonar.
„Ekki hendi en við fundum dálítið annað“
Eftir að hafa verið kallaður í VARsjána og séð að ekki var um neina hendi að ræða gat Saggi því haldið sig við vítaspyrnudóminn á þeim forsendum að Daníel hefði gerst brotlegur sem þó var einnig svo sannarlega umdeilanlegt.
„Þeir í VAR-herberginu redduðu honum. Þeir voru að skoða þetta og sögðu: „Heyrðu, þetta er ekki hendi en við fundum dálítið annað. Viltu ekki koma og tékka á því? Við getum bjargað þér.“ Þetta var bara þannig atburðarás. Annars var hann frábær í þessum leik, þessi dómari,“ sagði Baldur Sigurðsson í uppgjörsþætti Stöðvar 2 Sport eftir leikinn.
„Þetta er svo pirrandi. Hann er að dæma hendi en finnur svo bara eitthvað annað,“ bætti Baldur við.
„Mér finnst þetta algjör þvæla“
„En finnst ykkur þetta vera víti?“ spurði Atli Viðar Björnsson og Ríkharð Óskar Guðnason svaraði því með skýrum hætti:
„Aldrei!“ og Atli Viðar tók undir það:
„Auðvitað koma menn við hvern annan í teignum. Mér finnst þetta algjör þvæla.“
„Víkingarnir geta verið mjög ósáttir þegar þeir sjá þetta. Eitt mark getur skipt öllu máli í svona,“ sagði Baldur.
Eins og fyrr segir er seinni leikur liðanna í Aþenu á fimmtudaginn og ferðast Víkingar því beint frá Helsinki, þar sem leikurinn í gær fór fram, til Grikklands.