Atvinnulíf

Fleiri hluta­störf: Ríkið greiðir nú þegar 75% launa sem mót­fram­lag

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, leiðir nýtt úrræði sem heitir Unndís og á sér fyrirmynd hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Með Unndísi getur fólk á hlutaörorku sótt um hlutastarf og ríkið greiðir tímabundið 75% mótframlag með launum.
Sara Dögg Svanhildardóttir, sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun, leiðir nýtt úrræði sem heitir Unndís og á sér fyrirmynd hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Með Unndísi getur fólk á hlutaörorku sótt um hlutastarf og ríkið greiðir tímabundið 75% mótframlag með launum. Vísir/Vilhelm

„Nei, nei, þetta er nú þegar í gildi,“ segir Sara Dögg Svanhildardóttir sérfræðingur hjá Vinnumálastofnun um Unndísi; Nýtt verkfæri sem vinnustaðir geta nýtt sér þegar þau ráða fólk sem hefur af ýmsum ástæðum verið frá vinnumarkaði um tíma, telst með skerta starfsgetu og er komið á hlutaörorku.

Unndís virkar þá þannig að fyrirtæki sem ræður til sín fólk í hlutastörf sem er með skerta starfsgetu, fá ýmsa þjónustu þeim að kostnaðarlausu og fá þess til viðbótar tímabundið 75% mótframlag við greiðslu launa.

Fólk hverfur af vinnumarkaði af ýmsum ástæðum. 

Slys, sjúkdómar; það er svo margt sem getur komið upp á hjá fólki sem leiðir til þess að fólk sem býr þó yfir mikilli reynslu og þekkingu úr atvinnulífinu, hefur dottið af vinnumarkaði um tíma,“ 

segir Sara Dögg og bætir við:

„Hins vegar sýna tölur að oft getur það tekið þennan hóp fólks mjög langan tíma að komast aftur inn á vinnumarkaðinn. Ekki síst vegna þess að hér vantar einfaldlega fleiri hlutastörf.“

Þann 1.september næstkomandi verða breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem fela í sér nýja hugsun sem ætlað er að leiði af sér meiri hvata til atvinnuþátttöku fólks með mismikla starfsgetu. Aukin atvinnuþátttaka þessa hóps kallar á fjölgun hlutastarfa á vinnumarkaði.

Í dag og á morgun, rýnir Atvinnulífið í málin.

Peningahliðin

Svo skemmtilega vill til að nafngiftin Unndís er ekki eins alíslensk og halda mætti, því fyrirmyndin byggir á UNDIS Sameinuðu þjóðanna: United Nations Disability Inclusion Strategy.

„Og forstjórinn okkar heitir Unnur þannig að nafnið kom eiginlega sjálfkrafa til okkar,“ segir Sara og brosir.

Að sögn Söru, hafa stofnanir Sameinuðu þjóðanna unnið með sitt úrræði frá því árið 2018, með mjög góðum árangri. Að mótun Unndísar á Íslandi hafa hins vegar allir helstu hagaðilar komið og segir Sara mikla undirbúningsvinnu nú þegar hafa farið fram.

„En það vita of fáir um þetta og það er það sem við þurfum að vinna í núna; Að virkja fyrirtæki í að bjóða upp á hlutastörf og nýta sér um leið þann stuðning og þjónustu sem við erum að veita fyrirtækjunum; allt frá ráðningu og fyrstu mánuði eða ár viðkomandi í starfi.“

En byrjum á tölunum: Hvernig virkar þetta?

Jú, fyrir það fyrsta mun sá einstaklingur á hlutaörorku á styrk á meðan viðkomandi er í atvinnuleit.

„Við köllum þennan styrk virkni-styrk sem þýðir að á meðan atvinnuleitinni stendur, fær viðkomandi örorkuna sína greidda samkvæmt mati en virkni-styrk á móti sem nemur þá samtals 100% örorku.“

Sem þýðir þá að einstaklingur með 50% starfsgetu og á hlutaörorku, fær virkni-styrk til viðbótar sem þá samtals nemur 100% örorku á meðan á atvinnuleit stendur.

„Virknistyrkurinn er veittur þar til viðkomandi hefur hafið starf. Kerfið byggir á að svigrúm til atvinnuleitar nái yfir 24 mánuði. Ef ekkert hefur gerst á þeim tíma, er staðan tekin að nýju með einstaklingnum.“

Miklu skiptir þó að atvinnulífið mæti þeim hópi sem er tilbúinn til að snúa aftur til starfa.

„Eitt af því sem við bjóðum upp á er að fyrirtæki sem ákveða að gerast Unndísar-fyrirtæki er að rýna í málin og einfaldlega finna hlutastörfin. Því oft er það þannig að fyrirtækin eru jafnvel ekki að átta sig á því hvar innanhús tækifærin til hlutastarfa eru.“

En tökum dæmi um hvernig launakostnaðurinn myndi líta út fyrir fyrirtæki sem nýtir sér Unndísarleiðina.

Dæmi:

Sérfræðingur með 50% starfsgetu er ráðinn inn, en viðkomandi er á hlutaörorku. Ráðningarferli og stuðningur við upphaf ráðningatímabils, fræðsla og fleira er í boði af hálfu Vinnumálastofnunar, fyrirtækinu að kostnaðarlausu.

Þegar viðkomandi hefur störf, er greitt 75% mótframlag af þeim launum sem um eru samin.

„Þakið á þessum launum eru um 915 þúsund krónur. því við metum stöðuna svo að ef fólk er á hærri launum en það, sé líklegt að ekki þurfi að koma til mótframlag né stuðningur.“

Vinnustaðir geta nú þegar orðið að Unndísarvinnustöðum, sem til viðbótar við mótframlag launa þýðir ýmsa þjónustu og stuðning við fyrirtækin, þeim að kostnaðarlausu. Að sama skapi gengur Unndís út á að finna störf við hæfi fyrir fólk á hlutaörorku sem vill snúa aftur á vinnumarkað.Vísir/Vilhelm

Tækifæri fyrir svo marga

En næst er að átta sig á því hvaða fyrirtæki eru líkleg til að bjóða upp á hlutastörfin, hvar þau mögulega er að finna og hvernig er hægt að virkja fyrirtæki til að taka þátt í Unndísi með því að bjóða upp á fleiri hlutastörf.

Sara segir hlutastörfin geta átt við um alla geira og hjá bæði fyrirtækjum, stórum og smáum. Forsendurnar fyrir þátttöku fyrirtækja í Unndísi, geti þó verið mismunandi.

„Fyrir nokkru vorum við til dæmis á fundi með Félagi atvinnurekenda, en þar innanborðs eru mörg smærri og meðalstór fyrirtæki sem oft vantar að ráða inn fólk í hlutastörf en hafa verið í vandræðum með að finna það fólk. Með Unndísi er ætlunin að hjá Vinnumálastofnun verði hópur fólks með skerta starfsgetu á skrá, sem getur þá mætt þessari þörf fyrirtækjanna,“ segir Sara.

Þá hefur öll umræða í atvinnulífinu aukist mikið undanfarin misseri um nauðsynleika fjölbreytileikans á vinnustöðum og inngildingu hans.

„Sífellt fleiri fyrirtæki eru farin að huga að ráðningum í störf sem hluta af samfélagslegri ábyrgð. Enda eru félagslegu gildin ein af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Þetta á þá ekki síst við stærri fyrirtækin, sem gætu þá mögulega tekið þátt í Unndísi sem hluta af þeirri vegferð.“

En við verðum að spyrja leiðinlegu spurninganna líka; Er ekki alltaf einhver hópur sem fyrst og fremst vill fá bætur úr kerfinu en vill ekkert endilega vinna?

Sara segir vissulega fámennan hóp svarta sauða í öllum hópum eða stéttum samfélagsins.

„En það eru alltaf mjög fáir því þær upplýsingar sem liggja fyrir eru að fólk með skerta starfsgetu vill fá tækifæri til að komast aftur á vinnumarkaðinn og það sem meira er: 

Þegar fólk fær tækifæri til þess, sýna tölur að fólk nær sér fyrr á strik en ella og nær að vaxa í starfi og starfsgetu hraðar þegar það er komið aftur út á vinnumarkaðinn.“

En vitum við eitthvað um, hversu margir einstaklingar eru líklegir til að þurfa hlutastörf eftir að breytingarnar á örorkulífeyriskerfinu taka gildi næsta haust?

„Nei því miður, það nefnilega veit það enginn. Breytingarnar sem taka gildi ná aðeins til þeirra sem eru að fá mat um skerta starfsgetu núna en ekki þeirra sem hafa verið í kerfinu lengi. Þetta þýðir einfaldlega að fólk getur valið um það hvort það heldur áfram í gamla örorkukerfinu eða því nýja,“ svarar Sara.

Vinnumarkaðurinn hefur þó nú þegar góða reynslu af sambærilegum leiðum. Til dæmis fór af stað átak í kjölfar bankahruns sem mörg nýsköpunarfyrirtæki nýttu sér, en þá var mótframlag greitt með ráðningum til þeirra.

„Við höfum lært margt af fyrri reynslu. Til dæmis var það þannig að þegar verið var að ráða fólk í viðkvæmustu hópunum, til dæmis fatlað fólk, var mótframlag greitt í átján mánuði en að þeim tíma loknum, voru fyrirtækin jafnvel að segja viðkomandi upp. Sem fór þá aftur í atvinnuleit með fullan styrk með sér og allt ferlið hófst að nýju. Núna eru hins vegar hugmyndir um að viðkomandi haldi styrknum áfram sé staðan metin svo og haldi því frekar áfram í því starfi þar sem vel gengur, frekar en að hefja ferli upp á nýtt sem í raun felur ekkert í sér annað en það að verið er að færa sama fjármagnið frá einum stað til annars.“

Þann 1.september næstkomandi verða breytingar á örorkulífeyriskerfinu sem ætlað er að hvetji fleira fólk með skerta starfsgetu til að snúa aftur á vinnumarkað. Sara segir hins vegar að fleiri hlutastörf þurfi og að miklu fleiri fyrirtæki þurfi að vita af þeim tækifærum sem Unndís getur falið í sér til ráðninga á sérfræðingum.Vísir/Vilhelm

Hverjir verða Unndísarvinnustaðir?

Sara segir undirbúningsvinnuna hafa verið gífurlega mikla undanfarið, þar sem raddir allra hagaðila hafa komið að borði.

Samstarfið við Öryrkjabandalagið sé þétt og mikið, enda búi samtökin vel að reynslu og þekkingu um hversu mikilvægt það er að gefa fólki tækifæri til að komast aftur inn á vinnumarkaðinn.

„Unndís er samt líka leiðarvísir til að mæta þeim aðlögunartíma sem gera má ráð fyrir að fylgi hverri ráðningu á einstaklingi með skerta starfsgetu. Þar má jafnvel gera ráð fyrir að vinnuveitandinn þurfi að sýna ákveðinn sveigjanleika í starfi, að minnsta kosti um tíma. Enda getur það tekið okkur öll smá tíma að komast með fæturna aftur á jörðina ef við höfum til dæmis lent í veikindum eða slysi,“ segir Sara en bætir við:

„Leiðarvísir Unndísar þýðir í raun að vinnustaðir fara að vinna samkvæmt ákveðnu verklagi sem byggir á einföldum matskvarða. Þessi matskvarði kemur inn á alla helstu þætti; mannauðsstefnuna, hvernig störf eru auglýst eða ráðningaviðtöl tekin og svo framvegis.“

Heilt yfir segir Sara að sú þjónusta sem vinnustaðir geta fengið sér að kostnaðarlausu, feli í sér að ráðgjafar VMST vinni með vinnustöðum að eftirfarandi liðum:

  • Að rýna í tækifæri vinnustaðarins til fjölgunar hlutastarfa
  • Aðstoða við gerð aðgerðaráætlunar sem miðar að ráðningum í hlutastörf
  • Endurmat með reglubundnum hætti
  • Utanumhald og kynningu á Unndísi fyrir vinnustaðinn
  • Fræðslu um viðeigandi aðlögun á vinnustað
  • Stuðningur við ráðningu í störf og eftir atvikum með ráðningu
  • Fræðslu um viðeigandi aðlögun á vinnustað.
  • Stuðning við ráðningu í störf og eftir atvikum eftirfylgd með ráðningu.
  • Stuðning við gerð tímaáætlunar og aðgerðaplans innleiðingar.
  • Mat á stefnu og árangri innleiðingar; þ.e. inngildingu fólks með mismikla starfsgetu skrifuð inn í í jafnréttisstefnu.
  • Endurgjöf og aðstoð við að ná betri árangri þar sem það á við

„Verkefnið okkar núna er að hitta sem flesta vinnustaði og hagaðila og kynna þeim fyrir Unndísi. Því við viljum ekki að vinnumarkaðurinn verði ekki undirbúinn þegar breytingarnar á lögunum taka gildi næsta haust. Þess vegna er þetta eitthvað sem vinnustöðum býðst nú þegar. 

Nú er málið hins vegar að finna fleiri hlutastörf og hvetja fleiri vinnustaði til að bjóða upp á hlutastörf. 

Að ráða inn sérfræðing með skerta starfsgetu getur líka verið góð leið til að hefja eitthvað verkefni til flugs, sem síðan er orðið að sjálfbæru verkefni þegar mótframlagstíma lýkur.“


Tengdar fréttir

„Endurtek í sífellu: Ég vil ekki deyja, ég vil ekki deyja“

„Ég man að ég var að drepast úr hræðslu. Ég var svo viss um að ég væri að deyja og hugsaði með mér að ég hefði ekki náð að kveðja strákana mína almennilega. Að ég vildi ekki að þetta endaði svona,“ segir Sindri Már Finnbogason, stofnandi Tixly.

„Ég var lengi bakari en skellti mér síðan í öryrkjann“

„Í tæpt ár fór ég þrisvar sinnum í viku í 4,5 klukkustundir í senn í nýrnavélina. Sem dældi blóðinu úr mér í gervinýra, sem síðan dældi blóðinu aftur inn í líkamann minn. Síðan var maður slappur á eftir,“ segir Gunnar Þór Guðmundsson nýrnaþegi.

Krabbameinið sem týndist: „Fyrst sagði ég bara fokk!“

„Það fyrsta sem ég hugsaði var hvernig ég ætti að segja henni það,“ segir Sigurvin Samúelsson þegar hann rifjar upp hvað fór í gegnum hugann á honum, fyrst þegar honum var tilkynnt að hann væri með krabbamein.

Konurnar ofþreyttar en karlmenn vilja meiri frið til að vinna

„Kulnun smitar út frá sér á vinnustað og samkvæmt rannsóknum er viðkomandi ekki fær um að veita viðskiptavinum jafn góða þjónustu og ella væri,“ segir Trausti Heiðar Haraldsson framkvæmdastjóri Prósents þegar niðurstöður nýrrar könnunar Prósents eru ræddar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×