Upp­gjörið: Valur - Slavía Prag 28-21 | Vals­konur skrefi nær undan­úr­slitum

Hinrik Wöhler skrifar
Lovísa Thompson og samherjar hennar hjá Val eru í góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna á morgun.
Lovísa Thompson og samherjar hennar hjá Val eru í góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna á morgun. Vísir/Anton Brink

Valskonur eru einu skrefi nær undanúrslitum í Evrópubikarkeppni kvenna í handbolta eftir sjö marka sigur, 28-21, á tékkneska liðinu Slavia Prag í N1-höllinni í dag.

Valskonur byrjuðu af krafti og voru samstilltar og agaðar í varnarleiknum. Tékkarnir áttu í erfiðleikum með að brjóta vörn þeirra á bak aftur og það tók gestina rúmar sjö mínútur að skora fyrsta markið.

Á sama tíma skoruðu Valskonur fjögur mörk og áttu auðvelt með að finna glufur á tékknesku vörninni. Tékkarnir vöknuðu loks til lífsins og náðu að minnka muninn í eitt mark skömmu síðar.

Valskonur gáfu aftur í um miðbik fyrri hálfleik og átti útilína Slaviu Prag í vandræðum með að koma boltanum fram hjá varnarvegg Valskvenna. Skotin hjá gestunum enduðu annað hvort í vörn Vals eða hjá Hafdísi Renötudóttir í marki Vals.

Heimakonur gengu á lagið í sókninni með Theu Imani Sturludóttur í fararbroddi en skyttan skoraði sex mörk í fyrri hálfleik.

Jafnt og þétt jókst munurinn og voru Valskonur fimm mörkum yfir í hálfleik. Staðan var 17-12 og ljóst var að heimakonur voru komnar í góða stöðu.

Valskonur fóru illa af stað í byrjun seinni hálfleiks og nýttu færin illa. Tékkarnir minnkuðu muninn á sama tíma en heimakonur hleyptu gestunum þó ekki of nálægt sér og náðu sér strik aftur áður en það var of seint.

Um miðbik seinni hálfleiks var munurinn kominn í sex mörk, Valskonum í vil. Heimakonur nýttu yfirtöluna vel þegar Tékkarnir fengu tveggja mínútna brottvísun og virtust eiga auðvelt með að skapa góð færi.

Valskonur gáfu ekkert eftir undir lok leiks enda skiptir markatalan máli í þessu tveggja leikja einvígi og kláruðu heimakonur leikinn líkt og þær hófu hann, með sterkri vörn og skilvirkum sóknarleik.

Leiknum lauk 28-21, Val í vil, og er það ansi gott veganesti fyrir seinni leik liðanna á morgun sem fer einnig fram á Hlíðarenda.

Atvik leiksins

Öflug byrjun Vals lagði grunninn að sigrinum í dag og má segja að upphafsmínútur leiksins hafi sett tóninn fyrir einvígið.

Valskonur skoruðu fyrstu fjögur mörk leiksins gegn engu og náðu gestirnir aldrei að koma sér almennilega inn í leikinn eftir það.

Stjörnur og skúrkar

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var örugg í hægra horninu og skoraði átta mörk. Hún nýtti öll sín færi en þrjú af þeim voru af vítalínunni.

Thea Imani Sturludóttir leiddi sóknarleik liðsins í fyrri hálfleik þar sem hún skoraði sex mörk en náði þó ekki að halda sama dampi í seinni hálfleik.

Varnarleikur Vals var frábær í dag og tók miðjublokkin aragrúa af skotum. Þau skot sem fóru fram hjá varnarvegg Vals enduðu oftar en ekki hjá Hafdísi Renötudóttir og var hún með 35% markvörslu í dag.

Útilína gestanna náði sér aldrei á strik og áttu tékknesku skytturnar í miklum vandræðum með að koma boltanum á mark Vals. Helsta skytta gestanna, Simona Schreibmeierová, var með fjögur mörk úr fjórtán tilraunum úr opnum leik, svo dæmi sé tekið.

Dómarar

Franska dómaraparið Mathilde Cournil og Loriane Lamour dæmdu leikinn á Hlíðarenda í dag. Þær stóðu sig með ágætum en þeirra helsta skyssa í leiknum var að reka rangan mann út af velli með tvær mínútur og voru Tékkarnir frekar undrandi yfir þeirri uppákomu.

Stemning og umgjörð

Valsarar eru sjóaðir þegar kemur að stórum Evrópuleikjum og var umgjörðin eftir því í dag. Húsið opnaði 90 mínútum fyrir leik og var boðið upp á kræsingar og góða ræðumenn.

Mætingin var sæmileg en það heyrðist þó vel í áhorfendum. Það má þó fastlega gera ráð fyrir betri mætingu og látum á morgun en Valskonur eru í dauðafæri að ná þeim sögulega árangri að komast í undanúrslit Evrópubikarsins.

Viðtöl

Thea: „Maður veit aldrei hverjum maður er að fara mæta“

Thea Imani Sturludóttir átti fínan leik í dag í hægri skyttunni og skoraði sjö mörk í dag. Hún segir að það sé ávallt spennandi að mæta nýjum andstæðingi og þrátt fyrir nokkra myndbandsfundi þá getur maður aldrei greint andstæðinginn fullkomlega.

„Það er alltaf erfitt að mæta nýjum andstæðingi. Gústi [Ágúst Jóhannsson] sýnir okkur myndbönd og þess háttar, við höfðum trú á verkefninu en maður veit aldrei hverjum maður er að fara mæta. Hvort að klippurnar sem maður horfir á er eitthvað annað „level“ og þetta er alltaf erfitt að vita. Gott að geta klárað þetta svona,“ sagði skyttan eftir leikinn í dag.

Thea Imani Sturludóttir endaði með sjö mörk í dag.Vísir/Anton Brink

Hún benti sérstaklega á varnarleik liðsins í dag og var fremur ánægð með sigurinn þó að það séu einhverjir hlutir sem er hægt að bæta.

„Við spiluðum fínan varnarleik og vitum alltaf að við getum spilað betur. Varnarleikurinn var góður en það var einhver hluti sem við viljum bæta en í heildina er ég stolt af frammistöðunni og ná að halda vörninni allan leikinn.“

Thea byrjaði vel í leiknum og skoraði sex mörk í fyrri hálfleik. Hún náði ekki að halda sama takti í seinni hálfleik og segir að mögulega hafi þær tékkneska farið að mæta henni framar.

„Ég þarf að horfa á þetta aftur, kannski fór ég að slaka á í seinni eða þær fóru að mæta mér ofar. Þetta var mikill kraftur þarna í byrjun.“

„Það var smá kafli í byrjun seinni sem við skorum ekki í nokkrar mínútur en vorum að skapa okkur færi en ég þarf að kíkja aftur á þetta,“ sagði Thea þegar hún var spurð út í hvað þyrfti að bæta fyrir seinni leik liðanna á morgun.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira