Íslenski boltinn

Valur fær manninn sem var efstur á óska­listanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Marius Lundemo fagnar marki í leik með Lillestrøm.
Marius Lundemo fagnar marki í leik með Lillestrøm. ntb/Christoffer Andersen

Norski miðjumaðurinn Marius Lundemo hefur samið við Val og mun leika með liðinu í Bestu deild karla næstu tvö árin. Lundemo kom til móts við Valsmenn sem eru í æfingaferð á Marbella á Spáni.

Í fréttatilkynningu Valsmanna um félagaskiptin leynir það sér ekki að þeir eru ánægðir með að vera búnir að landa Lundemo.

„Það er okkur mjög mikilvægt að fá inn leikmenn sem hafa unnið titla. Við höfum lagt mikið á okkur við að tryggja okkur krafta Lundemo, enda hefur hann lengi verið efstur á óskalista okkar þegar kemur að djúpum miðjumanni. Lundemo er klárlega leikmaður úr efstu hillu sem mun koma til með að styrkja hópinn okkar allverulega,“ sagði Björn Steinar Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Vals.

Lundemo lék síðast með Lillestrøm en það var í annað sinn sem hann var á mála hjá liðinu. Hann fór til þess frá uppeldisfélaginu Bærum 2014 og lék með Lillestrøm í tvö ár.

Þaðan fór hann til stórliðsins Rosenborg þar sem hann varð tvisvar sinnum norskur meistari og einu sinni bikarmeistari.

Lundemo, sem er þrítugur, samdi við APOEL á Kýpur 2020 og lék með liðinu í tvö ár áður en hann fór aftur til Lillestrøm.

Valur hafnaði í 3. sæti Bestu deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið mætir Vestra á Hlíðarenda í 1. umferð Bestu deildarinnar sunnudaginn 6. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×