Sport

„Holland er hættu­legasti and­stæðingur sem Gunni hefur mætt lengi“

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Haraldur Dean er alltaf í horninu hjá syni sínum og verður það að sjálfsögðu í kvöld.
Haraldur Dean er alltaf í horninu hjá syni sínum og verður það að sjálfsögðu í kvöld.

Haraldur Dean Nelson, faðir Gunnars Nelson, er orðinn spenntur fyrir bardaga sonar síns í kvöld og er vel meðvitaður um að Gunnar fær alvöru andstæðing.

„Þetta er hörkuandstæðingur og við vitum að hann er hættulegur alls staðar. Hann er flókinn bardagamaður sem getur komið úr öllum áttum. Sem betur fer hefur undirbúningurinn gengið vel,“ segir Haraldur sem er að sjálfsögðu staddur í London með syni sínum.

Andstæðingurinn sem hann talar um er Kevin Holland. Hörkubardagakappi sem þarf að taka mjög alvarlega. Ólíkindatól sem getur verið erfitt að eiga við.

Klippa: Haraldur Nelson um bardagann gegn Holland

„Hann er mjög öflugur standandi enda með fjórtán rothögg. Hann er líka með þrettán sigra í fyrstu lotu. Hann er líka með svart belti í kung fu. Hann er því óútreiknanlegur. Hann er líka með langar hendur. Vel yfir tvo metra sem er fáheyrt. Þetta er hættulegasti andstæðingur sem Gunni hefur mætt lengi. Gunni er líka hættulegasti andstæðingur sem Kevin hefur mætt lengi,“ segir Haraldur ákveðinn.

Undirbúningurinn fyrir bardagann hefur gengið mjög vel og ekki yfir neinu að kvarta.

„Gunnar er sem betur fer heill heilsu og engin meiðsli. Stefnan er sett á sigur. Sama hvort það er með uppgjafartaki eða rothöggi. Vonandi gengur það eftir.“

MMA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×