Sport

Ey­gló til­nefnd sem lyftingakona ársins í Evrópu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eygló Fanndal Sturludóttir er á hraðri leið upp metorðastigann í ólympískum lyftingum.
Eygló Fanndal Sturludóttir er á hraðri leið upp metorðastigann í ólympískum lyftingum. vísir/sigurjón

Eygló Fanndal Sturludóttir hefur verið tilnefnd sem lyftingakona ársins 2024 af evrópska lyftingasambandinu.

Árið 2024 var stórgott hjá Eygló. Hún varð meðal annars í 4. sæti í -71 kg flokki á heimsmeistaramótinu.

Þá varð Eygló Evrópumeistari ungmenna og Norðurlandameistari. Hún var einnig hársbreidd frá því að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum í París.

Eygló hefur haldið uppteknum hætti á þessu ári. Um helgina vann hún sigur á Smáþjóðamótinu á Möltu. Þar keppti Eygló í -76 kg flokki. Hún létti sig ekki fyrir mótið þar sem hún undirbýr sig nú fyrir EM sem fer fram í Moldóvu í næsta mánuði.

Á opnunarhátíð Evrópumótsins verður tilkynnt hver hlýtur nafnbótina lyftingakona ársins 2024. Ásamt Eygló eru sjö aðrar tilnefndar.

Eygló, sem stundar læknanám meðfram lyftingunum, var í 3. sæti í valinu á Íþróttamanni ársins í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×