Erlent

Bíða með að stimpla AfD sem öf­ga­samtök

Kjartan Kjartansson skrifar
Alice Weidel, leiðtogi Valkosts fyrir Þýskaland.
Alice Weidel, leiðtogi Valkosts fyrir Þýskaland. Vísir/EPA

Þýska leyniþjónustan hefur ákveðið að bíða með að flokka Valkost fyrir Þýskaland (AfD) sem öfgasamtök á meðan dómstóll tekur afstöðu til lögbannskröfu flokksins. Flokkurinn segir ákvörðunina sigur fyrir sig.

AfD, sem er lengst til hægri af þeim flokkum sem eiga sæti á þýska þinginu og aðrir flokkar neita að vinna með, fór fram á lögbann á skilgreiningu leyniþjónustunnar á honum sem öfgasamtökum. Krafan er til meðferðar hjá stjórnsýsludómstóli í Köln, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Með því að skilgreina flokka sem öfgasamtök fær leyniþjónustan auknar heimildir til þess að fylgjast með starfsemi þeirra sem eru taldir ógn við lýðræði í landinu. Leyniþjónustan telur AfD aðhyllast kynþáttahyggju og hatast við múslima.

Leiðtogar AfD fögnuðu því að leyniþjónustan ætlaði að bíða með að stimpla flokkinn öfgasamtök. Það væri fyrsta skrefið að því að flokkurinn yrði hreinsaður af sök.

AfD hefur áður tapað máli þar sem flokkurinn barðist gegn því að ungliðahreyfing sín yrði flokkuð sem öfgahægrisamtök.

Flokkurinn hefur meðal annars boðað fjöldabrottvísanir innflytjenda sem eiga uppruna sinn að rekja til landa þar sem múslimar eru í meirihluta. Þá aðhyllist hann svipaða stefnu og margir aðrir hægriþjóðernispopúlistaflokkar í Evrópu sem byggir meðal annars á andstöðu við Evrópusambandið og loftslagsaðgerðir.

Vegna þessa samhljóms við repúblikana í Bandaríkjunum hafa fulltrúar Bandaríkjastjórnar deilt hart á þýsk stjórnvöld fyrir fyrirætlanir leyniþjónustunnar um að flokka AfD sem öfgasamtök. Formaður leyniþjónustunefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings hótaði því í gær að láta bandarísku leyniþjónustuna hætta að deila upplýsingum með þeirri þýsku vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×