Varnarmaðurinn umdeildi Marco Materazzi hjá Inter Milan er búinn að fá sér enn eitt húðflúrið og er það minnisvarði um sigur Ítala á HM í sumar. Materazzi komst þar eins og allir vita í heimsfréttirnar með því að verða fyrir reiðum skalla Zinedine Zidane, en ítalski varnarmaðurinn skoraði líka mark Ítala í leiknum dramatíska.
Á myndinni hér til hliðar sem tekin var á leik Inter og Bayern í Meistaradeildinni í gær, má sjá áletrunina "Berlín - 09-07-2006" en það er dagsetning úrslitaleiksins á HM. Fyrir ofan þessa áletrun er greinilegt að kappinn hefur látið setja á sig mynd tengda þessu þema, en ekki er hægt að greina hvort þar er á ferðinni andlitsmynd af Zinedine Zidane eða eitthvað annað.