Erlent

Stefnir í öruggan sigur hjá Mitt Romney í Utah-ríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mitt Romney ætlar fram í Utah. Nordicphotos/AFP
Mitt Romney ætlar fram í Utah. Nordicphotos/AFP

Bandaríkin Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikana árið 2012, tilkynnti í gær um að hann ætlaði í framboð til öldungadeildar Bandaríkjaþings í Utah-ríki. Ekki er búist við nokkru öðru en að Romney vinni öruggan sigur á kjördag í haust. Nýjasta könnun sem gerð var í ríkinu birtist um miðjan janúar og mældist Romney með 64 prósenta fylgi gegn nítján prósentum Demókratans Jenny Wilson.

Romney stillir sér upp gegn Donald Trump, samflokksmanni sínum og Bandaríkjaforseta, í myndbandi sem birtist með tilkynningunni. Sagði hann mikinn mun á því hvernig málum er háttað í Utah og höfuðborginni Washington og nefndi til dæmis innflytjendamálin og fjárlagahalla.

Þótt Romney hafi fæðst í Mich­igan og verið ríkisstjóri Massachusetts á hann sterk tengsl við Utah. Hann vann að skipulagningu Vetrarólympíuleikanna í Salt Lake-borg og er mormóni líkt og flestir íbúar ríkisins.

Sé litið til frammistöðu Romneys í Utah í fyrri kosningum í ríkinu er ljóst að hann hefur notið mikilla vinsælda. Í forvali Repúblikana 2008 fékk hann 90 prósent atkvæða gegn fimm prósentum Johns Mc­Cain, sem síðar átti þó eftir að hreppa útnefninguna. Romney fékk svo 93 prósent atkvæða í forvalinu 2012 og valtaði síðan yfir Barack Obama í forsetakosningunum í Utah með 73 prósentum atkvæða gegn 25. – þea




Fleiri fréttir

Sjá meira