Þessi áfangi leitarinnar fór á fullt á Austfjarðamiðum á mánudag og þar hafa rannsóknaskipið Árni Friðriksson ásamt fimm fiskiskipum verið að leita. Þessi floti hefur síðan verið að færa sig yfir á norðausturhornið en eitt skipanna, Jóna Eðvalds, leitar mun lengra úti af Austfjörðum, eins og lýst var í fréttum Stöðvar 2.
Í gær sigldu svo rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson og Hákon ÞH til Vestfjarða og þangað er Árni Friðriksson einnig kominn. Meðan Hákon heldur í austurátt til Norðurlands leita rannsóknaskipin tvö svæðið á Grænlandssundi sem var hulið hafís í byrjun janúar og mesta spennan er kannski hvort loðna finnist þar við ísjaðarinn.
Fiskiskipin munu svo þræða hafsvæðin undan Norðurlandi næstu daga. Gert er ráð fyrir að leitinni ljúki um helgina og vonast eftir niðurstöðum eftir helgi. Á vef Hafrannsóknastofnunar má fylgjast með leitarferlum skipanna.

Þetta er umfangsmesta loðnuleit til þessa. Áætlað er hver leitardagur kosti um tuttugu milljónir króna fyrir öll skipin átta, en sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar eru um borð í fimm skipanna.
Gjaldeyristekjur sem meðalstór loðnuvertíð gæfi af sér eru hins vegar taldar geta orðið tuttugu til þrjátíu milljarðar króna og það á nokkrum vikum. Forsendurnar eru að næg loðna finnist til að auka veiðikvótann úr 61 þúsund tonnum upp í 200-300 þúsund tonn.
Tekjurnar myndu einkum dreifast í þær byggðir sem veiða og vinna loðnu. Þær eru Þórshöfn, Vopnafjörður, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Fáskrúðsfjörður, Hornafjörður, Vestmannaeyjar og Akranes.