Samkvæmt nýjum sóttvarnareglum sem tóku gildi á miðnætti mega veitingastaðir nú vera opnir til klukkan 23:00 og þurfa gestir að hafa yfirgefið stað fyrir miðnætti. Á sama tíma var slakað á grímuskyldu og fjöldatakmarkanir hækkaðar úr fimmtíu í 150 manns.
„Hver klukkustund gefur betur í kassann,“ sagði Guðvarður Gíslason, framkvæmdastjóri P. Petersen sem rekur Petersen svítuna við Ingólfsstræti í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.
Breytingin hjálpaði ekki aðeins rekstrinum heldur væru viðskiptavinir líka ánægðari að þurfa ekki að „rjúka út úr húsi einn, tveir og þrír“, að sögn Guðvarðs.
Aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins hefur sett flest stærri mannamót á ís um margra mánaða skeið. Guðvarður sagði að öllum brúðkaupum, ráðstefnum og tónleikum sem voru bókuð í veislusal Petersen hefði verið aflýst í faraldrinum en nú væri fólk byrjað að bóka viðburði aftur.
„Núna ganga inn pantanir, sérstaklega fyrir árshátíðir í september, október og nóvember. Í ágúst detta brúðkaupin aðeins inn aftur en ekki eins mörg og þurftu frá að hverfa,“ sagði hann.
Fólk biði enn með að bóka fram á sumarið þegar slakað gæti verið enn meira á sóttvarnaaðgerðum.
„Það vill klára þetta fyrst held ég, ég held að það skipti öllu máli,“ sagði Guðvarður.