Arðsemin er yfir markmiðum bankans og spám greiningaraðila en að sögn stjórnenda eru helstu ástæður góðrar afkomu sterk tekjumyndun, aðhald í rekstri og jákvæð virðisbreyting útlána.
Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri Íslandsbanka en hreinar vaxtatekjur jukust um 2,4% á milli ára og námu 9,2 milljörðum króna. Vaxtamunur nam 2,6% á tímabilinu samanborið við 2,4% á sama tíma í fyrra. Virðisrýrnun var jákvæð á fyrsta ársfjórðungi um 483 milljónir króna og er sögð skýrast helst af batnandi útliti í ferðaþjónustu. Á fyrstu þremur mánuðum 2021 var virðisrýrnun neikvæð um 518 milljónir króna.
Fram kemur í uppgjörinu að útlán til viðskiptavina hafi aukist um 21,6 milljarða króna á fjórðungnum, eða um 2,0% og verið 1.108 milljarðar króna í lok mars 2022. Aukninguna megi að mestu rekja til húsnæðislána.

Innlán jukust en stjórnunarkostnaður dróst saman
Innlán frá viðskiptavinum jukust um 17,4 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi 2022 eða um 2,3% og voru 761 milljarður króna í lok mars. Að sögn Íslandsbanka má aukninguna að mestu rekja til sölu ríkisins á bankanum.
Eigið fé bankans nam 197,2 milljörðum króna í lok mars síðastliðnum. Eiginfjárhlutfall bankans var 22,5% samanborið við 25,3% í árslok 2021.
Hreinar þóknanatekjur jukust um 7,1% á milli ára og námu samtals 3,1 milljarði króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 2,9 milljarða króna í fyrra. Auknar tekjur í greiðslumiðlun, eignastýringu, fjárfestingarbanka og verðbréfa- og gjaldeyrismiðlun eru sagðar leiða hækkunina. Stjórnunarkostnaður nam 5,8 milljörðum króna sem er lækkun um 0,3% frá fyrsta ársfjórðungi 2021.
Ætla að breyta reglum um verðbréfaviðskipti starfsmanna
„Við erum ánægð með afkomu bankans á fyrsta ársfjórðungi sem nam 5,2 ma. kr. Arðsemi eigin fjár var 10,2% sem er í takti við arðsemismarkmið bankans. Hreinar vaxtatekjur uxu um 12,4% miðað við sama fjórðung í fyrra og vaxtamunur tímabilsins hækkaði í 2,6%,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka.
„Á fjórðungnum hélt ríkið áfram sölu á hlut sínum í bankanum í kjölfarið af vel heppnuðu frumútboði í fyrra og fer ríkið nú með 42,5% eignarhlut. Mikil umræða hefur skapast í samfélaginu um söluferlið og það fyrirkomulag sem notast var við. Meðal annars hefur komið fram gagnrýni á þátttöku starfsmanna bankans í útboðinu. Því tökum við alvarlega og stendur vinna yfir við breytingar á reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna.“
Birna bætir við að rafræn sala bankans á einstaklingsmarkaði sé nú um 75% af allri sölu og á hún von á því að sú tala hækki með tilkomu nýs söluvefs.
„Útlitið fyrir árið 2022 er bjart þar sem horfur í efnahagslífinu eru góðar og benda fyrstu merki til þess að ferðaþjónustan nái aftur fyrri hæðum.“
Fréttin hefur verið uppfærð.