Mikið hefur borið á því að stuðningsfólk enskra knattspyrnuliða sé að vaða inn á völlinn þegar lið þeirra hefur tryggt sæti sitt eða haldið vonum um að komast upp um deild á lífi.
Stuðningsfólk Everton æddi inn á Goodison Park, heimavöll liðsins, eftir dramatískan 3-2 endurkomusigur á Crystal Palace. Í umspili ensku B-deildarinnar gerðist það að Billy Sharp, fyrirliði Sheffield United, var skallaður af stuðningsmanni Nottingham Forest.
Þetta helst allt í hendur við aukin afbrot og vandamál á leikjum Englands á þessari leiktíð. Til að mynda er talið að kókaín notkun á fótboltaleikjum Bretlandseyja hafi aldrei verið meiri.
„Öryggi allra þeirra sem fara á völlinn á leikdegi er okkar helsta forgangsatriði. Fyrir lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag höfum við sent félögum deildarinnar regluverk sem snýr að því hvað gera skal ef áhorfendur æða inn á völlinn,“ segir talsmaður deildarinnar.
„Enska úrvalsdeildin hefur áhyggjur af hegðun áhorfenda á leikvöllum deildarinnar en veit þó að aðeins er um lítinn minnihlutahóp að ræða. Meirihluti áhorfenda sem mætir á völlinn styður lið sitt á virðingarverðan hátt.“
„Enska úrvalsdeildin hefur hvatt félög til að minna stuðningsfólk sitt á að það má ekki fara inn á völlinn. Ef það er gert gæti það farið á sakaskrá og verið bannað að mæta á leiki í framtíðinni,“ segir í tilkynningu ensku úrvalsdeildarinnar
Premier League has released a statement ahead of the final round of matches. Says it is 'concerned' at fan behaviour but says 'reckless actions' are from a minority. pic.twitter.com/aTSciIHVFn
— Simon Stone (@sistoney67) May 20, 2022
Lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar fer fram á sunnudag. Þar kemur í ljós hvort Manchester City eða Liverpool verður Englandsmeistari, hvort Tottenham Hotspur eða Arsenal nái Meistaradeildarsæti og hvort Burnley eða Leeds United falli.