Forstjóri Ölgerðarinnar hringdi bjöllunni við mikinn fögnuð í morgun. Hann segist stoltur og sannfærður um að skráning félagsins á markað muni styrkja Ölgerðina.
„Bæði höfum við greiðari aðgang að fjármagni á markaði en svo er líka mjög ánægjulegt að sjá að það eru sjö þúsund hluthafar nýir í félaginu og ég er sannfærður um það að þeir eru allir sendiherrar og munu kaupa vörur ölgerðarinnar og prómótera þær í sínum veislum,“ sagði Andri Þór Guðmundsson, forstjóri.
Hann segir að fjöldi nýrra hluthafa hafi komið ánægjulega á óvart og að Ölgerðin sé nú fjórða fjölmennasta félagið í Kauphöllinni.
Forstjóri Kauphallarinnar fagnar innkomu Ölgerðarinnar, ekki síst vegna þess að félagið er fyrsta framleiðslufélagið á neytendamarkaði sem skráð er i höllina.
Listi yfir tuttugu stærstu hluthafa félagsins hefur verið birtur. Horn III er enn stærsti hluthafinn eftir skráningu en alls átti félagið 25,1 prósent hluti fyrir útboðið.
Það er venjan að þegar félög eru skráð í Kauphöllina hringi forstjóri félags viðskiptin inn með sérstakri bjöllu sem Kauphöllin útvegar. Hún var þó ekki nýtt í dag.
„Þetta er í fyrsta sinn sem félagið útvegar skráningarbjölluna, þetta er í fyrsta sinn í sögu Kauphallarinnar svo ég viti til,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.
„Þessi bjalla hefur verið á Rauðarárstígnum og Tómas Tómasson, stofnandi Ölgerðarinnar hringdi inn kaffi og matartíma en nú má segja að við höfum hringt inn nýja tíma fyrir Ölgerðina,“ segir Andri Þór.