Haaland hefur verið að glíma við lítilvæg meiðsli og sat allan tímann á varamannabekknum þegar City vann 2-1 sigur á Club América frá Mexíkó á miðvikudaginn var. Hann er hins vegar klár í slaginn fyrir stórleik kvöldsins, sem hefst klukkan 23:00.
Jack Grealish býst við að Haaland verði óstöðvandi í framlínu City-liðsins.
„Hann er frábær náungi, geggjaður náungi. Við fórum saman í bílferð fyrsta daginn hans hér og strax eftir þá ferð hugsaði ég „þvílíkur gæi“,“ segir Grealish.
„Hann hefur litið mjög vel út á æfingum og þegar hann kemst í sitt besta form verður hann óstöðvandi. Ég get ekki beðið eftir að spila með honum,“ segir Grealish sem varð dýrasti leikmaður Englands síðasta sumar þegar City keypti hann á 100 milljónir punda frá Aston Villa.
Pressan sem fylgir því að koma til City er mikil, sérstaklega þegar verðmiðinn er hár, en Grealish segir Haaland, sem kostaði rúmar 50 milljónir, gera lítið úr pressunni.
„Hann sagði í alvöru við mig: „Ég kostaði aðeins helminginn þínum verðmiða, svo það er engin pressa á mér“,“ segir Grealish.
Fyrsti keppnisleikur Manchester City er gegn Liverpool er liðin leika um Samfélagsskjöldinn næstu helgi, þann 30. júlí klukkan 16:00. Sá leikur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.