Fótbolti

Segir að Raphinha sé lík­legri til að vinna Gullboltann en Salah

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Raphinha er markahæstur í Meistaradeild Evrópu á tímabilinu með ellefu mörk.
Raphinha er markahæstur í Meistaradeild Evrópu á tímabilinu með ellefu mörk. afp/Josep LAGO

Thierry Henry segir að Mohamed Salah, leikmaður Liverpool, sé ekki líklegastur til að vinna Gullboltann heldur Raphinha, leikmaður Barcelona.

Salah hefur átt frábært tímabil með Liverpool og skorað 32 mörk og gefið 22 stoðsendingar í öllum keppnum. Þrátt fyrir það telur Henry Salah ekki líklegastan til að vinna Gullboltann.

Henry segir að það vinni gegn Salah að Liverpool hafi fallið úr leik í Meistaradeild Evrópu í gær og að hann hafi skorað úr svo mörgum vítaspyrnum, samanborið við Raphinha.

„Að mínu mati er Raphinha á undan vegna þess sem hann er að gera í Meistaradeildinni. Hann er með ellefu mörk í keppninni. Mo Salah er frábær kandítat, [Harry] Kane líka og [Ousmane] Dembélé,“ sagði Henry.

„Þetta snýst um að standa sig í Meistaradeildinni og vinna deildina þína. Raphinha hefur skorað mikið og aðeins úr einu víti. Ég er ekki að segja Kane og Salah ættu ekki að taka víti. Salah er að eiga tímabil í ensku úrvalsdeildinni sem við sjáum aldrei aftur. Ég er bara að segja að Raphinha er næstum því með jafn mörg og hinir, án vítanna.“

Raphinha hefur skorað 27 mörk á tímabilinu, aðeins eitt úr víti. Á meðan hefur Salah skorað úr ellefu vítum.

Raphinha skoraði tvö mörk og lagði upp eitt þegar Barcelona tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með sigri á Benfica í gær, 3-1. Á meðan féll Liverpool úr leik fyrir Paris Saint-Germain eftir vítakeppni.


Tengdar fréttir

„Við tókum út alla lukkuna í síðustu viku“

Arne Slot, knattspyrnustjóri Liverpool, hrósaði sínu liði þrátt fyrir tap á móti Paris Saint Germain á Anfield í kvöld. Liverpool er úr leik eftir 1-0 tap í leiknum og 4-1 tap í vítaspyrnukeppni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×