Fótbolti

„Liðið sem vinnur í kvöld fer alla leið“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Luis Enrique er sigurviss fyrir kvöldið, enda yfirspilaði lið hans Liverpool í síðustu viku.
Luis Enrique er sigurviss fyrir kvöldið, enda yfirspilaði lið hans Liverpool í síðustu viku. Getty/Antonio Borga

Luis Enrique, þjálfari Paris Saint-Germain, er fullur sjálfstrausts fyrir leik liðs hans við Liverpool á Anfield í kvöld. Um er að ræða síðari leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Á einhvern ótrúlegan hátt vann Liverpool fyrir leik liðanna 1-0 en PSG hafði algjöra yfirburði í París síðasta miðvikudag. Harvey Elliott stakk rýtingi í hjarta stuðningsmanna PSG með marki undir lok leiks.

PSG var með algjöra yfirburði allan leikinn en frammistaða Alisson Becker í marki Liverpool var á meðal þeirra betri sem sést hafa í keppninni.

Búast má við frábrugðnum leik í kvöld þar sem Liverpool á til að skapa sérstaka stemningu á Anfield á Meistaradeildarkvöldum. Þeir rauðklæddu vilja vafalaust sýna betri frammistöðu en í síðustu viku.

Luis Enrique, þjálfari PSG, er hins vegar fullur sjálfstrausts.

„Jafnvel þó við séum undir eftir fyrri leikinn munum við spila okkar eigin leik frá byrjun. Þrátt fyrir úrslitin í París hefðum við ekki viljað spila neitt öðruvísi,“ sagði Enrique á blaðamannafundi í gær.

„Það eina í stöðunni er að vinna og það er það sem keyrir okkur áfram. Ég held að það komi Arne Slot ekki á óvart hvernig við stillum upp, rétt eins og ég hef ákveðnar hugmyndir um það hvernig hann mun stilla upp,“ segir Enrique sem telur að sigurlið kvöldsins fari alla leið í úrslit.

„Ég mun ekki gefa upp hvernig við nálgumst leikinn, en við munum sjá tvö af bestu liðum Evrópu sem eru bæði fær um að komast í úrslit Meistaradeildarinnar. Og ég tel að liðið sem fer áfram muni fara alla leið,“ segir Enrique enn fremur.

Leikur Liverpool og PSG er klukkan 20:00 í kvöld og verður sýndur beint á Vodafone Sport.


Tengdar fréttir

Alisson: „Líklega besti leikur lífs míns“

Alisson Becker átti algjöran stórleik í kvöld þegar Liverpool sótti 1-0 sigur til Parísar í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Brasilíski markvörðurinn bjargaði Liverpool hvað eftir annað og liðið skoraði síðan sigurmarkið eftir langa sendingu fram völlinn frá Alisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×