Myndir og myndbönd af atvikinu fóru sem eldur um sinu í kjölfarið enda flest á því að um gríðarlega óviðeigandi atvik hafi verið að ræða. Rubiales var þó ekki á þeim buxunum og neitar að segja af sér þrátt fyrir mikla pressu.
Í kjölfar atvika dagsins í dag, þar sem Rubiales tjáði sig, hefur Hermoso tjáð sig á samfélagsmiðlum sínum.
„Eftir að ná einum merkasta áfanga íþróttaferils míns, og eftir nokkra daga af íhugun, vil ég þakka samherjum mínum, stuðningsfólki, aðdáendum, fjölmiðlum og öllum þeim sem hafa hjálpað mér að gera þennan draum að veruleika. Stuðningur og vinna ykkar var grundvöllurinn að því að vinna HM,“ segir Hermoso og heldur áfram.
Official Announcement. August 25th,2023. pic.twitter.com/lQb18IGsk2
— Jenn1 Hermos0 (@Jennihermoso) August 25, 2023
„Því miður voru fagnaðarlætin í styttri kantinum. Ég vil ekki hafa nein áhrif á framgang laganna og þau mál sem eru í gangi en mér finnst ég knúin til að segja að orð Luis Rubiales um atvikið sem átti sér stað eru uppspuni og hluti af þeirri stjórnsömu-menningu sem hann hefur búið til.“
„Ég vil taka skýrt fram að aldrei átti nein umræða sér stað og að með engu móti hafi ég samþykkt kossinn. Ég vil taka fram að mér líkaði einkar illa við téð atvik,“ bætti Hermoso við.
Landsliðskonan segir einnig að engin einstaklingur eigi að þurfa þola hegðun sem þessa, að hún hafi verið berskjölduð og fórnarlamb karlrembu sem gerði hluti án hennar samþykkis.
„Það var einfaldlega ekki borin virðing fyrir mér,“ segir Hermoso áður en hún fer yfir skrípaleikinn sem átti sér stað þegar spænska knattspyrnusambandið reyndi að þvinga hana til að gefa út sameiginlega yfirlýsingu með geranda hennar. Hún gaf aldrei út slíka yfirlýsingu og reyndi einfaldlega að njóta þess að hafa orðið heimsmeistari.
Hún tekur fram að sambandið hafi þrýst á hana, fjölskyldu hennar, vini og samherja til að reyna sópa málinu undir teppið. Hún segist standa fast á sínu og þvertekur fyrir að það sé á hennar ábyrgð að gefa út yfirlýsingu sem fari gegn því sem hún standi fyrir.
„Ég hef enga þolinmæði fyrir svona hegðun … og það er ákvörðun mín að á meðan sama fólk er við stjórnvölin hjá spænska knattspyrnusambandinu mun ég ekki gefa kost á mér í spænska landsliðið,“ sagði Hermoso að endingu áður en hún þakkaði fyrir stuðninginn.