Í tilkynningu þess efnis á vef Hafrannsóknastofnunar segir að þessi ráðgjöf sé samhljóma fyrirliggjandi upphafsráðgjöf sem byggði á mælingum á ungloðnu haustið 2022. Ráðgjöfin verði endurmetin þegar niðurstöður bergmálsmælinga á stærð veiðistofnsins liggja fyrir í byrjun árs 2024.
Ráðgjöfin byggi á niðurstöðum bergmálsmælinga á loðnustofninum á rannsóknarskipunum Árna Friðrikssyni og Tarajoq á tímabilinu 23. ágúst til 23. september.
Leiðangurinn sé talinn hafa náð yfir útbreiðslusvæði stofnsins. Hafís hafi takmarkað yfirferð nyrst á rannsóknasvæðinu, en ekki sé talið líklegt að loðna hafi verið á svæðinu sem var sleppt. Loðnan hafi verið nokkuð jafndreifð á svæðinu og mæling hennar haft fremur lágan breytistuðul.
Heildarmagn loðnu hafi mælst tæp 697 þúsund tonn og þar af var stærð veiðistofns metin 325 þúsund tonn. Magn ókynþroska í fjölda hafi verið um 48 milljarðar en samkvæmt samþykktri aflareglu þurfi yfir fimmtíu milljarða til að mælt verði með upphafsaflamarki fiskveiðiársins 2024/2025.
Gögn um niðurstöður ungloðnumælinganna verði lögð fyrir Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES) sem muni veita ráð um upphafsaflamark vertíðarinnar 2024/2025.