Greinilegt er af myndbandinu hve þakklátur Freyr er fyrir þau tvö og hálft ár sem hann hefur búið í Danmörku og þjálfað Lyngby. Hann stýrði liðinu í fyrstu tilraun upp í dönsku úrvalsdeildina, hélt því þar með ævintýralegum hætti á síðustu leiktíð, og skilur nú við það um miðja deild til að taka við Kortrijk í Belgíu.
„Ég hef átt fjölda stórkostlegra stunda í Lyngby Boldklub og finnst ég óhemju heppinn að hafa verið hluti af þessu félagi, sem hefur svo mikla þýðingu fyrir mig og mína fjölskyldu. Nú er því miður kominn tími til að kveðja – því miður, vegna þess að það er svo erfitt að kveðja félagið og allt það sem við höfum átt hér saman,“ segir Freyr í myndbandinu.
„Ég vil nýta tækifærið til að segja takk við alla í kringum félagið – stuðningsmenn, styrktaraðila og samverkamenn mína. Mér er svo annt um alla í Lyngby-fjölskyldunni og ég gleymi aldrei því sem við upplifðum saman,“ segir Freyr og kveðst ekki í vafa um að Lyngby verði áfram stýrt í rétta átt með samtakamætti allra þeirra sem að félaginu koma.
Í frétt á vef Lyngby þakkar félagið Frey sömuleiðis „fyrir stórkostlegan tíma sem mun aldrei gleymast“, og á samfélagsmiðlum birtist þetta myndband honum til heiðurs:
TAK FOR ALT, FREYR #SammenForLyngby pic.twitter.com/oyuvfBAals
— Lyngby Boldklub (@LyngbyBoldklub) January 5, 2024