Ómar Ingi Magnússon fór hamförum í liði Magdeburgar. Teitur Örn Einarsson átti líka fantaflottan leik þegar Flensburg vann Göppingen.
Magdeburg tók á móti Refunum frá Berlín í leik sem heimaliðið mátti einfaldlega ekki tapa í baráttunni um Þýskalandsmeistaratitilinn. Leikurinn var gríðarlega jafn framan af og þó Magdeburg hafi náð mest þriggja marka forystu þá létu gestirnir það ekki á sig fá og staðan 16-15.
Ómar Ingi og Janus Daði Smárason með síðustu mörk Magdeburgar í fyrri hálfleik. Ómar Ingi lagði svo upp tvö fyrstu mörk liðsins í síðari hálfleik en þá náði Magdeburg aftur upp þriggja marka forystu.
Má segja að þau hafi lagt grunninn að sigri dagsins en á endanum fór það svo að Magdeburg vann leikinn með með þriggja marka mun, lokatölur 31-28.

Ómar Ingi var allt í öllu hjá heimamönnum en hann var bæði marka- og stoðsendingahæstur. Hann skoraði 7 mörk og gaf 6 stoðsendingar. Janus Daði Smárason skoraði 2 mörk og gaf 2 stoðsendingar á meðan Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði einnig 2 mörk.
Sigurinn þýðir að Magdeburg er nú aðeins stigi á eftir toppliði Füchse Berlín og með leik til góða.

Teitur Örn var hreint út sagt frábær þegar Flensburg vann fimm marka sigur á Göppingen í dag, lokatölur 35-30. Teitur Örn gerði sér lítið fyrir og skoraði fimm mörk ásamt því að gefa þrjár stoðsendingar. Aðeins Simon Pytlick kom að fleiri mörkum í liði Flensburg í dag.
Flensburg er í 3. sæti með 37 stig, þremur minna en Magdeburg sem hefur þó leikið leik minna en Teitur Örn og félagar.

Að endingu vann Íslendinglið Gummersbach sjö marka útisigur á Bergischer, lokatölur 24-31. Elliði Snær Viðarsson gaf eina stoðsendingu í liði Gummersbach en Arnór Snær Óskarsson lék ekki með liðinu í dag.
Guðjón Valur Sigurðsson er sem fyrr þjálfari liðsins sem situr nú í 7. sæti með 24 stig.
Fréttin hefur verið uppfærð.