
Nú er þessi ungi Spánverji búinn að slá EM-metið yfir yngsta markaskorara sögunnar og strákurinn mun spila úrslitaleik um Evrópumeistaratitilinn á sunnudaginn. Leikurinn fer fram daginn eftir að Yamal heldur upp á sautján ára afmælið sitt.
Flestir litu eflaust svo á það að með þessari baðferð hafi Messi lagt sína blessun yfir Yamal og jafnvel fært honum eitthvað af töfrum sínum.
Það hljómar líklegt þegar við horfum upp á Lamine Yamal fara á kostum á stærsta sviðinu eins og hann sé bara hreinlega fæddur fyrir þetta hlutverk. Hann hefur þessa töfra sem við þekkjum frá því að horfa á Messi spila.
Mounir Nasraoui, faðir hins sextán ára gamla Lamine Yamal, er aftur á móti með allt aðra sýn á þessa sérstöku stund. Hann var spurður út í það hvort Messi hafi þarna blessað son hans.
„Eða að Lamine blessaði Leo [Messi]. Ég veit það ekki. Fyrir mér þá er sonur minn bestur í öllu,“ sagði Nasraoui við Mundo Deportivo.
Myndatakan var fyrir dagatal Barcelona sem var gert til styrktar góðgerðamála. Þetta var árið 2007 og Messi byrjaður að spila stórt hlutverk í Barcelona liðinu.
Hann var aftur á móti ekki orðinn sá yfirburðamaður sem hann varð í framhaldinu.
Messi skoraði fyrst yfir þrjátíu mörk á tímabilinu 2008-09 eða eftir að Pep Guardiola tók við Barelona liðinu. Í kjölfarið fékk hann sinn fyrsta Gullhnött, Ballon d'Or, árið 2009. Messi hefur alls fengið Gullhnöttinn átta sinnum á ferlinum.