Sveindís Jane hefur aðeins byrjað einn deildarleik fyrir Wolfsburg það sem af er leiktíð og var því í kunnuglegri stöðu á varamannabekknum þegar Turbine Potsdam heimsótti Wolfsburg í dag.
Á 26. mínútu fékk Wolfsburg vítaspyrnu þegar hreinsun eins leikmanna Potsdam hæfði hönd eins leikmanns liðsins og vítaspyrna dæmd. Lena Lattwein steig á punktinn og skoraði af öryggi. Minna en fimm mínútum síðar fékk Wolfsburg aðra vítaspyrnu og í það skiptið var það hollenski bakvörðurinn Lynn Wilms sem skoraði úr spyrnunni.
2-0 stóð í hálfleik og í hléinu kom Sveindís Jane inn af bekknum. Á 70. mínútu tók Lina Vianden aukaspyrnu fyrir Potsdam langt utan af velli. Spyrnan sveif í átt að marki og endaði einhvern veginn í netinu. Algjörlega glórulaus markvarsla Merle Frohms markvarðar Wolfsburg og staðan orðin 2-1.
Hollenska landsliðskonan Lineth Beerensteyn tryggði Wolfsburg aftur á móti 3-1 sigur undir lokin og styrkir Wolfsburg stöðu sína á toppi deildarinnar með 25 stig, fimm á undan Frankfurt, Bayern Munchen og Bayer Leverkusen en öll eiga þau leik inni.