Szalai hné niður á varamannabekknum á 7. mínútu leiksins og spænski dómarinn Jesús Gil Manzano stöðvaði leikinn í kjölfarið. Leikmenn og starfslið röðuðu sér upp hjá Szalai og stóru hvítu laki var haldið uppi svo ekki sæist í hann.
Tíu mínútna töf varð á leiknum meðan hugað var að Szalai. Hann var fluttur með sjúkrabíl á spítala í Amsterdam en samkvæmt upplýsingum frá ungverska knattspyrnusambandinu er ástand hans stöðugt.
Holland vann leikinn, 4-0, og tryggði sér þar með sæti í átta liða úrslitum Þjóðadeildarinnar.
Hinn 36 ára Szalai lagði skóna á hilluna í fyrra og varð hluti af þjálfarateymi ungverska liðsins í síðasta mánuði. Hann lék sjálfur 86 landsleiki og skoraði 26 mörk. Szalai lék lengst af í Þýskalandi en var einnig um tíma á mála hjá Real Madrid og lék fyrir varalið félagsins.