Arnar er þjálfari Víkings og er staddur í Jerevan í Armeníu þar sem Víkingar undirbúa sig fyrir leik við Noah í Sambandsdeild Evrópu á fimmtudaginn kemur.
Arnar segir í samtali við Fótbolti.net að hann hafi ekki heyrt frá KSÍ og sé í raun ekkert að spá í starfið þrátt fyrir orðróma. Öll einbeiting Arnars sé við verkefni fimmtudagsins.
Komi símtalið sé það í höndum stjórnarmanna Víkings að ákveða hvort þeir gefi Arnari leyfi til að ræða við KSÍ eða ekki.
Samkvæmt heimildum Vísis hefur KSÍ ekki sett sig í samband við Víking. Fastlega má gera ráð fyrir að KSÍ bíði þar til leikur Víkings við Noah á fimmtudag sé afstaðinn áður en sambandið hefur einhverskonar viðræður.
Freyr Alexandersson stýrir Kortrijk sem situr í næstneðsta sæti belgísku úrvalsdeildarinnar. Hann tók við á miðju síðustu leiktíð þegar liðið var í slæmri stöðu og gerði afar vel að halda liðinu uppi.
433.is greinir frá því að Freyr hafi áhuga á því að taka við landsliðinu á þessum tímapunkti og hafi komið þeim áhuga á framfæri við þá sem valdið hafa hjá Knattspyrnusambandinu en hafi þó ekki rætt við fulltrúa sambandsins.
Freyr var áður þjálfari kvennalandsliðsins frá 2013 til 2018 og var aðstoðarþjálfari Eriks Hamrén sem stýrði karlalandsliðinu frá 2018 til 2020. Freyr sóttist eftir því að taka við af Hamrén 2020 en KSÍ ákvað þá að ráða Arnar Þór Viðarsson til starfa.
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, sagði við Vísi í gær að hann hallaðist fremur að því að ráða innlendan þjálfara en erlendan. Arnar og Freyr virðast frambærilegustu kostirnir verði sú leið farin og virðist sem báðir séu áhugasamir.
Þorvaldur sagði enn fremur að best væri að ráða nýjan mann sem fyrst en stjórnarfólk KSÍ hyggðist þó standa vel og vandlega að ráðningunni og ferlinu sem henni fylgir. Hann á von á fjölda umsókna víða að og verður fróðlegt að sjá hvernig málinu gengur fram.