Erlent

Musk sakaður um að heilsa „að nas­istasið“

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Musk gerði handahreyfinguna, sneri sér við og gerði hana aftur. 
Musk gerði handahreyfinguna, sneri sér við og gerði hana aftur.  EPA

Auðjöfurinn Elon Musk sætir gagnrýni vegna handahreyfinga sem hann gerði á samkomu Repúblikana í tilefni innsetningar Donalds Trump Bandaríkjaforseta í kvöld. Hreyfingar hans eru sagðar minna á nasistakveðju. 

Musk var einn helstu stuðningsmanna og styrktaraðila í kosningabaráttu Trump. Eftir sigur Trump lýsti forsetinn verðandi því yfir að hann hygðist útnefna Musk sem sérstakan ráðgjafa um niðurskurð og sparnað innan stjórnkerfisins.

Sjá einnig: Musk settur í niður­skurðinn og sjón­varps­maður verður varnar­mála­ráð­herra

Repúblikanar stóðu fyrir hátíðahöldum í Capitol One íþróttahöllinni í tilefni innsetningarinnar í kvöld og var Musk meðal ræðumanna. 

„Mig langar til að þakka ykkur fyrir að gera þetta að veruleika,“ sagði Musk í ræðu sinni. Í framhaldinu sló hann hægri hönd sinni á brjóstkassann og sveiflaði henni upp á ská meðan lófi hans sneri niður. Þá sneri hann sér við og endurtók hreyfinguna. 

Guardian fjallar um málið, og vísar í ADL, baráttusamtök gegn gyðingaandúð, sem lýsa sams konar handahreyfingu og Musk gerði sem nasistakveðju sem iðulega var notuð til að hylla Adolf Hitler í valdatíð hans fyrir og í seinni heimsstyrjöldinni. 

Í umfjöllun ísraelska miðilsins Haaretz er kveðjunni lýst sem „rómverskri kveðju“, fasistakveðju sem oftast sé tengd við Þýskaland nasismans. Í umfjöllun Independant segir að notast hafi verið við kveðjuna í virðingarskyni á tímum Rómaveldis en síðar hafi fasistasamtök, þar á meðal Nasistaflokkurinn í Þýskalandi, tileinkað sér kveðjuna og í kjölfarið tengi margir kveðjuna við hreyfinguna. 

Skiptar skoðanir á merkingu kveðjunnar

Þá hafa ýmsir aðilar gagnrýnt Musk fyrir gjörninginn. Þar á meðal félagasamtökin Repúblikanar gegn Trump, sem eru með nærri 800 þúsund fylgjendur á X, forriti í eigu Musk. „Bíddu, var Musk að heilsa að sið nasista?,“ segir í færslu frá samtökunum

„Nýi meðforsetinn okkar heilsaði að nasistasið á fyrsta degi Trump í embætti,“ segir Sawyer Hackett ráðgjafi Demókrata í færslu á X. 

„Standandi lófatak fyrir Elon Musk, þetta eru bestu undirtektir sem nokkur hefur fengið í dag,“ sagði Erin Burnett fréttamaður á CNN sem fjallaði um hátíðahöldin. „Við sáum síðan þessa undarlegu kveðju.[...]. Hún leit skringilega út.“

Skiptar skoðanir eru þó á þessu atferli Musk en Independant hefur eftir blaðamönnum og gagnrýnendum að handahreyfingar hans hafi ekki verið að nasistasið. Ekki sé tilefni til að kippa sér upp við atferlið. 

Erlendir miðlar hafa grenslast eftir ummælum frá Musk og talsmönnum hans vegna málsins. Enn hefur hann ekki orðið við þeirri beiðni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×