Frá þessi segir í tilkynningu frá sjóðnum. Þar kemur fram að LV hafi, frá því að tilboðið var kynnt þann 10. mars síðastliðinn, farið ítarlega yfir tillögur sem ráðgjafar lífeyrissjóða annars vegar og viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra hins vegar hafi lagt fram um uppgjör HFF34 og HFF44 bréfa og greidd verði atkvæði um á fundum skuldabréfaeigenda 10. apríl næstkomandi.
„Í framkominni tillögu felst að kröfur verði efndar með afhendingu ríkisskuldabréfa, annarra verðbréfa og reiðufjár í gjaldeyri og íslenskum krónum, en samþykki 75% kröfuhafa á fundi þarf til að tillögurnar verði samþykktar.
LV hefur að lokinni ítarlegri yfirferð og greiningu metið tilboðið ásættanlegt sé litið til heildarhagsmuna sjóðfélaga og mun því greiða atkvæði með tillögunum á fundum skuldabréfaeigenda,“ segir í tilkynningunni.
Lán upp á 540 milljarða
Sagt var frá því þann 10. mars að viðræðunefnd fjármála- og efnahagsráðherra og ráðgjafar lífeyrissjóða hefðu saman mótað tillögur um uppgjör HFF-bréfa sem greiða mun fyrir slitum ÍL-sjóðs, áður Íbúðalánasjóðs. Sagði að ef tillögurnar myndu hljóta samþykki kröfuhafa og Alþingis myndi ríkið slá lán upp á 540 milljarða króna til þess að gera upp skuldir.
Í tengslum við uppgjörið gæfi ríkissjóður út ný ríkisskuldabréf að fjárhæð 540 milljarða króna, þar sem meðal annars yrði gerð upp eldri skuld ríkissjóðs við ÍL-sjóð að fjárhæð 238 milljarða króna, auk þess sem ábyrgð ríkissjóðs á skuldbindingum ÍL-sjóðs yrði gerð upp.
Í uppgjörinu er virði HFF-bréfanna metið á 651 milljarða króna. Í uppgjörstillögunum felist að ÍL-sjóður og íslenska ríkið afhendi kröfuhöfum áðurnefnd ríkisskuldabréf að andvirði 540 milljarða króna, önnur verðbréf í eigu ÍL-sjóðs að andvirði 38 milljarða króna, gjaldeyri og reiðufé að andvirði 73 milljarða króna. Ríkissjóður muni svo taka við hluta af vaxtaberandi eignum ÍL-sjóðs, samtals að fjárhæð um 222 milljarða króna en þar sé um að ræða húsnæðislánasafn ÍL-sjóðs auk annarra verðbréfa.
190 þúsund sjóðsfélagar
Um Lífeyrissjóður verzlunarmanna segir að um sé að ræða lífeyrissjóður með um 190 þúsund sjóðfélaga. Starfsemin felist í margvíslegum verkefnum varðandi móttöku iðgjalda, ávöxtun og umsýslu alþjóðlegs eignasafns sem og víðtæka þjónustu við sjóðfélaga. Árið 2024 greiddi sjóðurinn yfir 40 milljarða í lífeyri til um 27 þúsund sjóðfélaga.
Fjármunir sjóðfélaga eru ávaxtaðir með gagnsæjum og ábyrgum hætti með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi. Eignasöfnin fimm námu yfir 1.458 milljörðum króna í árslok 2024 og er sjóðurinn því stærsti opni lífeyrissjóðurinn.