Holland skoraði þegar aðeins 90 sekúndur voru eftir af leiknum og tryggðu sér þar með efsta sæti riðilsins og farseðilinn á HM. Íslenska liðinu hefði dugað jafntefli en liðið þarf nú að fara í gegnum umspil til að komast á HM sem fram fer í Ástralíu og Nýja-Sjálandi næsta sumar.
„Það er lítið hægt að segja. Við lögðum allt í þetta og vorum grátlega nálægt að ná þessu á endanum. Auðvitað var Holland betri en við úti á vellinum en við vorum nálægt því að ná að hanga á þessu,“ sagði Þorsteinn eftir leik.
Hollenska liðið kom af miklum krafti inn í leikinn og rak íslenska liðið. Þær komust þó sjaldan í gegnum íslensku vörnina og ef það tókst þá var Sandra Sigurðardóttir í banastuði þar á bakvið.
„Við unnum fullt af boltum inn í teig, náðum að hreinsa trekk í trekk en á endanum var það einn skalli sem kláraði leikinn þegar það voru 90 sekúndur til leiksloka, það er ótrúlega sárt. Við ætluðum okkur að ná í eitt stig eða meira en svona er þetta bara.“
„Við gerðum ákveðnar breytingar í hálfleik sem þrýstu þeim í að þurfa gefa fyrir utan af kanti. Það skapaði ekki mikil vandamál fyrir okkur og við unnum flest alla bolta sem komu inn á teig. Þær fengu einhver færi og náðu skalla í slá en við vorum að verjast vel og Sandra greip vel inn í þegar þess þurfti. Það eru auðvitað gríðarleg vonbrigði að þessi eini bolti hafi lekið inn.“
„Það er alveg sama hvernig hefur gengið í fótboltaleik, ef það er 0-0 og aðeins 90 sekúndur eftir þá eru alltaf gríðarleg vonbrigði að tapa,“ sagði Þorsteinn að endingu um leikinn áður en hann var spurður út í umspilið sem fram fer í október.
„Þurfum að kyngja þessu og mæta tvíefld til leiks inn í umspilið. Við vissum fyrir fram að þessi riðill gæti endað með úrslitaleik í Hollandi. Við fórum í hann og gáfum allt sem við áttum. Ég er mjög stoltur af leikmönnum, þær gáfu allt í þetta. Get ekki kvartað yfir þeirra frammistöðu,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, að lokum.