Næst kemur Oculis með 12,37% hækkun og JBT Marel sem hafði farið upp um 9,76% þegar þetta er skrifað. OMX 15-vísitalan hefur hækkað um 5,46% og er nú komin upp fyrir það sem hún var föstudaginn 4. apríl.
Bandarískir hlutabréfamarkaðir tóku við sér í gær eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti óvænt að níutíu daga hlé yrði gert á gildistöku stóraukinna innflutningstolla. Í kjölfarið sást ein mesta hækkun hlutabréfaverðs í sögu Wall Street en stefnubreyting forsetans nær ekki til innflutnings frá Kína.
Nú er staðan sú að öll lönd heims fá á sig tíu prósenta tollinn sem áður hafði verið boðaður, nema Kína en Trump hefur sett 125 prósenta toll á allar vörur þaðan. Kínverjar hafa sett tæplega níutíu prósenta tolla á vörur frá Bandaríkjunum á móti. Áfram verður 25 prósent tollur settur á alla innflutta bíla, stál og ál frá öðrum ríkjum en Kína.
Ekki enn náð sér á strik
Hlutabréfamarkaðir tóku talsverða dýfu víða um heim eftir að Bandaríkjastjórn tilkynnti umfangsmiklar hækkanir tolla á innfluttar vörur í síðustu viku. Þrátt fyrir hækkunina í morgun er íslenska OMX 15-vísitalan enn 7,76% lægri en hún var við lokun markaða þann 2. apríl, skömmu áður en Trump tilkynnti tollahækkanir sínar.
Markaðir í Asíu og Evrópu hafa brugðust vel við þeirri ákvörðun Trumps Bandaríkjaforseta að gera hlé á tollunum og sáust hækkanir í flestum kauphöllum í gær og morgun eftir miklar lækkanir síðustu daga.
Hlutabréfagreinandinn Snorri Jakobsson sagði á mánudag að lítil rök væru á bak við lækkanir margra íslenskra félaga, til að mynda þeirra sem hafa litla sem enga tengingu við Bandaríkjamarkað. Verðlækkanirnar megi að hans mati rekja til þess að fjárfestar hafi leitast við að flýja áhættu og selja hlutabréf sem beri mikla áhættu.
Fréttin hefur verið uppfærð.