Þetta er fyrsta umferð forkeppninnar og fyrri leikur liðanna en sá síðari verður spilaður eftir eina viku. Komist íslensku liðin áfram þá tekur við önnur umferð forkeppninnar strax í vikunni á eftir. Tapi liðin hafa þau lokið keppni í Evrópukeppnunum í ár.
Valsmenn eru á heimavelli á móti albanska félaginu Vllaznia. Leikurinn fer fram á Valsvelli og hefst klukkan 19.00. Bein útsending á Stöð 2 Sport hefst klukkan 18.45. Vllaznia datt út á móti norður-írska félaginu Linfield í þessari sömu umferð í fyrra.

Stjörnumenn eru á heimavelli á móti norður-írska félaginu Linfield. Leikurinn fer fram í Garðabænum og hefst klukkan 19.00: Bein útsending á Stöð 2 Sport 5 hefst klukkan 18.50. Linfield komst áfram í aðra umferð í þessari sömu keppni í fyrra en datt þá út á móti pólska félagin Pogon Szczecin.
Blikar eru á útivelli á móti norður-makedónska félaginu Tikvesh. Leikurinn fer fram í Skopje og hefst klukkan 18.30 að íslenskum tíma eða klukkan 20.30 að staðartíma: Bein útsending á Bestu deildar rás 2 hefst klukkan 18.50. Tikvesh varð norður-makedónskur meistari í fyrsta sinn á síðustu leiktíð og er að spila sinn fyrsta Evrópuleik.

Valsmenn tryggja sér leik á móti skoska félaginu St Mirren komist þeir áfram. Stjörnumenn tryggja sér aftur á móti leik á móti sigurvegaranum úr viðureign Bala Town frá Wales og Paide Linnameeskond frá Eistlandi. Blikar mæta Drita frá Kósóvó komist þeir áfram úr sinni viðureign.
Leikirnir eru félögunum afar mikilvægir enda talsverðir peningar í boði komist félögin í næstu umferð forkeppninnar.
Það er ein bein útsending í viðbót í kvöld því Fram tekur á móti KR í Bestu deild karla í fótbolta. Leikurinn byrjar klukkan 19.15 en bein útsending á Bestu deildar rás 1 hefst klukkan 19.05.